Með góðra manna hjálp...

...tókst okkur Selmu að ferja "Skytturnar þrjár" heim í Fjárborg í kvöld. Fyrst ber að þakka Tjörva "fóstbróður" mínum Bjarnasyni sem lánaði mér lúxus jeppann sinn til ferðarinnar. Þetta er eðalvagn, ekki einungis með ríkulegum staðalbúnaði heldur og, hlaðinn aukabúnaði. Af staðalbúnaði má nefna 10 gíra áfram og 2 afturábak, í stað "cruise control" er gervigreind sem nemur öll hámarkshraðaskilti og sér um að hraði jeppans fari ekki yfir þau mörk. Þá er hann með loftkælingu sem myndi reyndar henta betur ef gróðurhúsaáhrifanna væri farið að gæta enn meir en orðið er þar sem stillingarnar eru tvær, kalt og ískalt. Af aukabúnaði má nefna, vörupall, farsíma, heimabíókerfi, talstöð og leslampa.

Jæja nema hvað þegar fréttist af ferðum okkar var samið við okkur um að taka með vestur eitt stykki þvottavél og gashyllki. Með þetta á pallinum og hestakerru í eftirdragi ókum við sem leið lá norður Kjalarnes og um Hvalfjarðargöng. Þar vorum við krafðar um litlar 1200 kr fyrir afnot af einni akrein aðra leiðina í 5 km. Það þótti mér djúpt í vasa mína seilst. Annars var ferðin tíðandalítil vestur, aðstoðarökumaðurinn steinsvaf að vísu enda ráðlegt að safna kröftum fyrir stórræðin sem framundan voru. Á Stakkhamar komum við á slaginu 19.00 eins og boðað hafði verið. Var bifreiðin affermd og "Skytturnar þrjár" drifnar út úr húsi, höfðu þegar úðað í sig kvöldmatnum og voru ferðbúnar. Spori hoppaði fyrstur upp á kerruna, þessi elska gerir allt sem hann er beðinn um. Garðar fylgdi sömu leið. Smára þótti hins vegar orðið þröngt á þingi og spyrnti við fótum. Spori kallinn var þá bara tekinn niður aftur og upp fór Smári og Spori á eftir. Smá babb kom í bátinn því ökumaður lúxusjeppans far nú fastur fyrir framan hestana en það leystist með því að skríða á bak Spora og renna sér niður hann aftur úr kerrunni, hann er bara snillingur.

Við þáðum síðan samtals 4 ristaðar brauðsneiðar með osti og 2 kakóglös áður en haldið var suður á bóginn á ný. Sóttist ferðin lengi vel en þegar suður fyrir Borgarnes kom sprakk mikilvægt öryggi tengt ljósabúnaði bílsins. Var ekki um annað að ræða en svifta sér út í næsta útskot á veginum og leita aðstoðar. Fyrstu viðbrögð aðstoðarökumannsins voru að hringja í Gulla og Eddu á Hvanneyri, var ekki að spyrja að viðbrögðum á þeim bæ, Gulli lagði þegar af stað til aðstoðar. Hjálpsamt par á ferð um veginn sá líka að einhver vandi steðjaði að okkur og bauð fram aðstoð sína. Þetta góða fólk leysti með okkur úr vandræðunum svo við gátum haldið áfram för.

Í Hvalfjarðargöngum var sama gjaldtaka sem fyrr svo "Skytturnar þrjár" fengu frítt í göngin. Um það bil korter í ellefu vorum við svo komnar í Fjárborg og tókum "Skytturnar þrjár" af kerrunni og komum þeim hús með hjálp Sigrúnar og Ingimundar. Í stöllunum þeirra biðu brauðmolar, velkomnir heim strákar mínir, nú getum við farið að leika okkur saman.

Við þökkum Tjörva kærlega fyrir lánið á fararskjótanum  sem og öllum sem hjálpuðu okkur.


Ég er með ofbirtu í augunum...

...eftir blossana í myndavélunum áðan. Það verður gaman þegar vinnufélagarnir fara að raða myndum af mér í fjölskyldualbúmin, ég í rauða sparidressinu en í þetta sinn var það ekki Brynhildur sem sá um lagninguna Grin.

Annars er bara allt fínt, árið ætlar að byrja vel hjá mér og þeim vinum mínum sem ég hef frétt af. Ég er komin á kaf í bissness, seldi hnakkinn á fyrsta degi ársins. Ekkert smá ánægð með það. Svo uppgötvaði einn vina minna að hann er spaði og fór beint út að aka, ætli hann verði ekki kominn á fast með kvöldinu. Annar heldur að hann sé jólasveinn, sé hann ekki næstu ellefuoghálfanmánuðinn Wink og sá þriðji seldi ónýta bílinn sinn fyrir meira en skilagjaldið af þeim er. Ekki ónýtt það!!

Svo verður kvöldið rólegt því erfingjarnir eru loksins búnir að snúa sólarhringnum í 360 gráður, annar er sofnaður og hinn verður vonandi farinn snemma í rúmið.

 

 


Munið að nota spariundirfötin...

...og kristalsglösin ykkar þegar ykkur langar til á nýja árinu. Stundum flakka um netið milli "netfanganna" skilaboð á þessa leið. Skilaboðin eru þessi: Leyfum okkur að njóta þess besta sem við eigum, hvort sem það eru falleg glös eða stundir með vinum og nánustu ættingjum. Í mínum huga er ekki til það sem sumir kalla að hafa það of gott. Ef eitthvað gott bankar á hjá manni á bara að bjóða því í bæinni.

Ég hef annars ekki sérstaklega fyrir venju að strengja áramótaheit. Í þetta sinn stefni ég þó á að láta gamlan draum rætast (stelpur í málfundafélaginu það er ekki þessi með flottu hestana ...Cool) en til að enginn steli hugmyndinni verður meira ekki látið uppi að sinni. Svo er á áætlun að fara í hestaferð, minnka kaffidrykkju, komast á topp 5000 í bloggheimum, og endurnýja kristalsglösin og spariundirfötin eftir þörfum Tounge 

Gleðilegt ár kæru vinir og ættingjar, vona að nýja árið færi ykkur gæfu og gleði.


Ellefu af tíu mögulegum...

... er einkunnin sem ég gef árinu sem nú er að kveðja. Það skyggði vissulega á að Laufey amma féll frá á árinu, blessuð sé minning hennar. En þetta varð árið sem ég endurheimti hestamennskuna að fullu. Ég hef ekki stundað hana jafn mikið líklega síðan árið 1988 þegar ég var á Hólum að kenna með þær systur Brönu og Baldintátu með mér og svo framkvæmdastjóri fjórðungsmóts á Kaldármelum um sumarið. Þá gerði ég líka bestu hestasölu mína sem enn hefur ekki verið jöfnuð. Þá seldi ég Gust minn litla undan Perlu.

Á árinu eignaðist ég marga nýja vini ekki síst í kringum hestana. Hestaferðin sem við ég og erfingjarnir fórum í með fleira frændfólki var frábær, jafnvel þótt myndavélin yrði viðskila við mig uppi á miðri Rauðamelsheiði. Hún fannst reyndar í göngunum við afvelta kind og myndirnar í fínu lagi þó rignt hefði í margar vikur. Finnendur þekktu Brynjar frænda í Bjarnahöfn á myndunum, munur að ferðast með fólki sem er frægt í alvörunni.

Brynhildur hárgreiðslukona er endanlega búin að taka mig upp á sína arma, fór í áramóta-snurfusið til hennar á föstudaginn. Ég get svarið að Sveinbjörn á Hótelinu horfði gapandi á mig á eftir - hún lét ekki nægja að klippa, túpera og spreyja, heldur litaði augabrýr og smalaði saman förðunarvörum úr veskjum sínum og hinnar hágreiðsludömunnar á svæðinu, til að fullkomna verkið. Teflonhúðinni hefur verið sagt stríð á hendur!!

Árið 2008 má því koma fagnandi, vonandi tekst að búa til margar skemmtilegar minningar tengdar því.


Laugardagur til lukku...

Æ nú er ég líklega að gleyma að kaupa lottó eina ferðina enn. Annars var tekin törn í dag. Handboltastelpur í Gróttu sem ætla á Partilla Cup í Svíþjóð í vor, tóku sig til og söfnuðu dósum á Seltjarnarnesi með liðsinni foreldra. Nesbúar tóku vel á móti stelpunum,  afraksturinn fyllti nánast einn pallbíl og skilar vonandi góðri summu í ferðasjóðinn.

Daginn byrjaði ég annars á að heimsækja strákana í Tónastöðinni sem skiptu um strengi í Fendernum og svo skilaði ég ónefndri bók Blush í Mál og menningu, það má örugglega nýta inneignarnótu þar við tækifæri.

Munið svo krakkar mínir að versla flugeldana hjá hjálparsveitunum og Landsbjörgu. Þessir aðilar vinna gríðarlegt starf fyrir okkur hin sem finnst best að breiða sængina uppfyrir haus þegar úti hvín og blæs.


Hvernig geta fjórir fjörkálfar...

þrír táningar, ein húsfreyja og einn köttur sofið samtímis í íbúðinni minni? Wink Ég hefði kannske átt að hugsa út í það fyrr!

Táningarnir þrír lokuðu sig inni í herbergi eldri heimasætunnar, settu DVD mynd í sjónvarpið, læstu og hentu lyklinum og vonuðust til að vera látnir í friði.

Fjörkálfarnir fjórir hreiðruðu um sig í stofunni en eitthvað háði þindarkrampi því að Óli Lokbrá sæi um að þeir héldu samninginn um að húsfreyja fengi svefnfrið frá miðnætti. Það var pískrað, flissað, upphugsaðar aðferðir til að stríða táningunum og þeim strítt eins og hugmyndaflugið leyfði. Rúmlega þrjú heyrðist síðast í þeim og já þá þurftu þær að fara að sofa því það var handboltaæfing kl. 9 í morgun. Einn fjörkálfur vaknaði við símann sinn í morgun en ég býst ekki við mikilli mætingu á handboltaæfingu af stofugólfinu hjá mér.

Af húsfreyju og kisa er það að frétta að kisi gat ekki sofið fyrir spenningi og mátti heyra hann hlaupa fram og aftur með fjörkálfunum fram eftir nóttu. Húsfreyja dró sængina upp fyrir haus, og mátti heyra hrotur hennar um tvöleytið en eitthvað varð samt minna um svefn en löngun hennar stóð til.

Jólafrí er jú til að skemmta sér!


Góðir hálsar og sænskir menn...

Að taka þátt í félagsstarfi er ákaflega mannlegt og skemmtilegt. Sumir eru í leynifélögum, aðrir í Rotary eða saumaklúbbum en ég er í sundfélagi. Sundfélagið heitir Grettir eftir mesta sundkappa Íslandssögunnar, Gretti Ásmundarsyni. Þetta félag hefur starfað um árabil á þriðju hæð Hótel Sögu, nánar tiltekið meðal starfsmanna Bændasamtaka Íslands. Gildir limir Tounge eru 9 og fjarlimur einn ef ég tel rétt, samtals 10. Ég hef þá ánægju að vega þungt Cool þegar meðalaldur er reiknaður, næsti limur (að fjarlimi frátöldum) er 10 vetrum eldri en ég og sá elsti, sem jafnframt er formaður félagsins, fyllti áttrætt í fyrra ef ég man rétt.

Á morgun, síðasta virkan vinnudag fyrir áramót, verður árlegt Grettiste. Þar verða fram bornar kökur að hætti félaga og drukkið te. Lesnir verða  valdir kaflar úr Grettlu og lögð fram vottorð um sundafrek í öðrum löndum, auk hefðbundinna fundarstarfa. Mér er nær að halda að andlegri deyfð sé um að kenna hve treglega gengur að fá unglimi í félagið en á meðan held ég stelpunafnbótinni kyrfilega. En allavega, ég hlakka svo til og ég veit að formaðurinn hlakkar ekki minna til LoL


Ég er víst dugleg að baka...

Sá armi kvittur var lengi á kreiki að ég væri ekki sérlega húsleg eða dugleg að baka. Hann gæti hafa komist á kreik á þeim árum sem ég hafði mestan metnað til að keyra dráttarvélar og takmarkið þar var að fara með sjálfhleðsluvagninn suður á Stekkjarhöfða, fylla hann af heyi og koma því heim í hlöðu, sem ég nota bene gerði áður en ferli mínum sem dráttarvélarstjóra lauk. Á þeim tíma hafði ég lítinn áhuga á hjónabandssælubakstri og skúringum. En svo rammt kvað að þessu að fyrir nokkrum árum stóð Rán frænka mín bísperrt inni í eldhúsi hjá mér og tilkynni að mamma sín segði að ég væri svo ódugleg að baka! Ja þá veit maður það og kannske komin skýringin á því af hverju það er líkast því að ég sé teflonhúðuð þegar kemur að því að fá karlmenn til að tolla við mig. Leiðin að hjarta þeirra ku víst liggja um magann eða hvað? Nema hvað nú  á síðastliðið Þorláksmessukvöld kemur upp úr dúrnum að enn er eftir að baka maregnstoppa með eftirréttinum á aðfangadagskvöld. “Hringjum í Sigrúnu til að fá uppskriftina” kvað við í Laufeyju og mömmu. Sallaróleg mælti ég faglega: “Það er nú bara 300 g af sykri og 3 eggjahvítur”. Ég get svarið að þær urðu laglega hissa ekki síst Laufey. Hvernig ég kynni þessa uppskrift! En strákar mínir ég tilynni hér með: “Ég er víst dugleg að baka.”


Jólahátíð

Ég er svo heppin að koma á æskuheimili mitt um hver jól með erfingjunum mínum. Hluti af þeim forréttindum að hafa alist upp í sveit og nú hálfníræð, eiga foreldra á lífi við góða heilsu. Við runnum í hlað á Þorláksmessukvöld eins og áætlað hafði verið. Um kvöldið sýndi ég dætrum mínum hvernig móðir-dóttir módelið virkar, prílaði upp um glugga og veggi við að koma upp síðustu seríunum. Síðan var jólatréð skreytt. Mamma dró fram jólaskrautið sitt en ég varð hálfskrýtin á svipinn smá stund þegar ég fór að tína kúlurnar upp á tréð. “Mamma þessar kúlur eru orðnar brúnar í endann”, sagði ég. “Æ já ég ætti kannske bara að henda þeim,” kom hjá henni, “þær voru keyptar árið sem hún Gyða í Miklaholti var að vinna á Vegamótum.” Ójá, þessar kúlur eru nefnilega búnar að hanga á öllum jólatrjám sem hafa nokkurntíma staðið í stofunni á Stakkhamri, um það bil 40 ára gamlar. Auðvitað verður þeim ekki hent, þær eru dýrgripir sem tilheyra jólunum hjá okkur öllum og verða sennilega áfram hengdar á jólatré meðan nokkur leið er að festa í þær spotta.


Gleðileg jól

Þá er komið að síðustu nóttinni hér heima í bili. Á morgun förum við í sveitina með viðkomu á Hvanneyri hjá Eddu, Gulla og Lottu í árlega skötuveislu. Moli liggur hér undir handleggnum á mér með tásurnar ofan á b og v svo ég forðast orð með þeim stöfum. Ég óska öllum vinum mínum og ættingum nær og fjær innilega gleðilegrar hátíðar. Farið vel með ykkur, látið ykkur þykja vænt um hvert annað og njótið þessara daga sem framundan eru.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband