17.1.2008 | 20:26
Gamla Brýnið í loftfimleikum...

Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.1.2008 | 08:47
Um réttlæti heimsins…
Hún Oktavía mín er búin að þjóna mér dyggilega í rúm tvö ár. Það var í september 2005 sem ég keypti hana hjá Brandi á Bílaþingi Heklu. Síðan þá hefur hún rokið í gang dag hvern, skutlað erfingjunum út og suður, sjálfri mér í vinnuna og farið hringinn í kringum landið svo fátt eitt sé nefnt. Hún þarf sitt bensín og smurolíu rétt eins og ég fer í bað og borða en annars eru kröfurnar mjög hógværar. Einu sinni stakk hún við fótum á Suðurlandsbrautinni og neitaði að fara lengra en það er löngu fyrirgefið. Semsagt hún er svo þæg og ódýr í rekstri að nærri liggur að hún prenti peninga fyrir eigandann. Einn útgjaldaliðinn fáum við Oktavía þó með engu móti ráðið við. Það er reikningurinn frá VÍS fyrir ábyrgðartryggingunni. Í hvert sinn sem einhver forstjórinn fær sér Range Rover, gefur frúnni Bens eða stráknum hvítan Porsch, hækkar meðalverðmæti bílaflotans og við Oktavía þurfum að punga meiru út í ábyrgðartryggingu. Við þetta verður vart lengur unað, fólk sem vill aka um á svona lúxuskerrum verður að vera tilbúið að taka á sig ALLAN kostnaðinn af því. Bíll er tæki til að komast frá A til B. Ef fólk þarf að sitja í leðursófasetti með stóra tölvu undir húddinu og heimabíó til að bakka eftir verður það sjálft að kosta það ekki við Oktavía þó við eða einhver jafningi okkar yrði fyrir því að hnubba svona kerru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2008 | 08:48
Á framabraut ...
Undanfarið hefur verið í ýmis horn að líta hjá mér m.a. við að koma mér á framfæri í kvikmyndaheiminum eins og áður hefur komið fram. En í gær var stóri dagurinn. Tilboðið sem ég tók um daginn stóðst og tvær kvikmyndavélar, ljósameistari, hljóðmeistari og leikstjóri mættu á svæðið. "Settið" var á annarri hæð Sögu og cameran tók að rúlla upp úr kl. tvö. Frumsýning verður í mars skilst mér þannig að tilnefning til Óskarsverðlauna kemur ekki til fyrir en fyrir hátíðina 2009, eins gott því annars hefði ég þurft að sleppa að mæta, því allar stjörnurnar í Holly standa með handritshöfundum og mæta því líklegast ekki á hátíðina í ár.
Pilsið Pífa fékk þarna tækifæri til að koma fram, veit ekki hvort það mun sjást. Það skiptir þó ekki öllu því vinnufélagarnir dáðust að handverki mínu í bak og fyrir og ég kom heim hlaðin gullhömrum, líka frá (sumum) strákunum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.1.2008 | 16:41
Um "styrkleika" kvenna ...
Í gær brunaði ég á Hvanneyri að kenna um hagfræði, ekki sérstaklega í frásögur færandi. En á þessum ferðum mínum á þessum árstíma hef ég komist á ótrúrlega góðar útsölur í Hyrnunni, Kringlu þeirra Borgfirðinga. Ég nældi í tvær Adidas peysur fyrir erfingjana í síðustu ferð en nú var komið að mér. Sem ég skunda þarna inn sé ég ÓTRÚLEGA flotta SKÓ! Já ef það er eitthvað sem ég er búin að læra að versla nánast eingöngu á útsölum eru það skór. Ég þræddi mig framhjá þeim í skeifnabúðina því erindið var jú að skóa eina af skyttunum þremur. En á bakaleiðinni var mér ekki mjakað lengra en að þessum skóm og er skemmst frá því að segja að ég skundaði með þá undir hendinni út úr Hyrnunni, sigri hrósandi yfir þessum kjarakaupum. Skórnir þeir eru semsagt á leiðinni á djammið í borginni og passa þetta litla vel við "prjónapilsið" mitt, hana Pífu.
Aðrar fréttir eru helst þær að eftir að hafa vikum saman farið seint að sofa, kom Linda sér endanlega í fullorðinna tölu með því að fara að drekka KAFFI! Kastaði tólfunum í morgun þegar ég kom að henni eftir morgunsturtuna við að hella uppá. Ég benti henni nú í allri vinsemd á að kaffi kemur ekki í staðinn fyrir svefn
.
Að lokum held ég að eitthvað sé að uppfræðslu unga fólksins í dag. Í spurningakeppni framhaldsskólanna í gær tókst hvorugu liðinu sem þar kepptu að svara því hvernig Adam og Eva klæddust í Paradís, eru fíkjublöð svona gersamlega komin úr tísku eða hvað
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2008 | 21:49
Eurovision stemmingin að hefjast...
Við Valdís vinkona mín höfum verið meðal hörðustu Júróvísíon aðdáenda hérlendis árum saman. Valdís hefur sérhæft sig í norrænu spekingunum en ég og erfingjarnir höfum horft á íslensku undankeppnina. Svo kemur hátíðisstundin í maí, keppnin sjálf. Þá er safnast saman við sjónvarpið hér í Mýrinni og vinir erfingjanna mæta gjarnan líka, aðallega til að horfa á þessar klikkuðu dellukerlingar. Við vorum tryggir aðdáendur Wig Wham, Moldóvíu með ömmuna og Lordi svo dæmi séu nefnd.
Nú lítur út fyrir að við getum virkilega haldið með íslenska laginu í ár... eða allavega ég, hef ekki heyrt í Valdísi. Dr. Spoock komst áfram í undankeppnina í kvöld og þar eru á ferð töffarar sem Sylvía Nótt myndi sennilega aldrei láta sjá sig með en ég myndi taka eftir svona bleikum buxum hvar sem ég sæi þær (og kíkja eftir hvernig þær falla á vissum stöðum í kringum svona...). Jafnvel Megas, sem ég hvorki meira né minna en spjallaði við í Kolaportinu í dag, mætir þarna ofjarli sínum í klæðaburði allavega. Það er því ljóst að ég verð að fylla á símafrelsið til að vera í startholunum næst þegar þessir töffarar mæta í sjónvarpið. Vonandi syngja þeir á serbnesku í Zagreb.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.1.2008 | 21:58
ja ... maður verður að hafa gaman
Jæja loksins tókst að koma mynd af Stúfi á síðuna. Þessi verður að duga til næstu jóla því hann er komin á vetrarstöðvarnar.
Hér úr Mýrinni er annars helst að frétta að Fröken Linda byrjaði í ökutímum í vikunni. Gengur bara vel hjá henni enda búin að sitja í framsætinu hjá mér nokkrum sinnum og sjá bæði hvernig og hvernig ekki á að stjórna bifreið. Áhugi á bílum og akstri er reyndar útbreiddur á heimilinu. Selma er löngu farin að hugsa um bíla og bílpróf og Mola finnst voða spennandi að fara í bíltúr. Seinast í kvöld skrapp hann með mér að skutla erfingjunum út og suður (ég tel mig eiga inni akstur hjá þeim í nudd og fótsnyrtingu langt fram á tíræðisaldur). Hann var bæði spenntur að horfa út og fylgjast með því sem fyrir augu bar en líka mjög rólegur og góður. Fyndið þegar Selma fór, seinust úr bílnum, þá teygði hann sig upp á hliðarrúðuna eins og til að vinka henni bless. Verst að Örn tekur hann sennilega ekki í ökutíma, því annars hefðum við skötuhjúin getað skiptst á að keyra þegar fram líða stundir, ég þegar hann fær sér í klærnar og hann þegar ég fá mér í tánna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.1.2008 | 12:37
Nýjustu fréttir af Stúfi...
Vegna fjölda áskorana kemur hér mynd af Stúfi sem heimsótti börnin á jólatrésskemmtun í Bændahöllinni 2. janúar sl. Síðast fréttist af honum þrammandi uppi við Skjaldbreið ásamt bræðrum sínum. Það var þó ekki hann sem stakk sér í Vesturbæjarlaugina á eftir mér.
Bloggar | Breytt 11.1.2008 kl. 20:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.1.2008 | 19:31
...að verða 007 stúlka
Ég hef lengi litið á 007 sem karlmennskuna holdi klædda, fyrst og fremst af því að dökkhærðir alvöru töffarar hafa leikið kappan, seinast Pierce Brosnan. Það runnu því hálfpartinn á mig tvær grímur þegar 007 varð allt í einu ljóshærður með Daniel Craig. En Daniel er hinn mesti sjarmör, ég tók gleði mína aftur og setti markið ótrauð á að hreppa hlutverk 007 stúlkunnar í næstu mynd. Þetta hef ég reyndar lengi undirbúið, heimasíminn endar á 007, sömu tölustafi er að finna í farsímanúmerinu mínu og ég hef kynnt mér vopnaburð með því að bera gervigæsirnar hans Tjörva fóstbróður míns í einni veiðiferðinni. Eðlilegt framhald af ákvörðun minni nú var að herða sundtökin og fjölga mætingum í Vesturbæjarlaugina til að koma mér í form. Það lá þó við að ég beitti bardagatækninni sem ég hef tileinkað mér á vigtina í kvennklefanum nú eftir áramótin þegar hún sýndi áður óþekktar tölur. Sem betur fer varð skapstyrkur minn yfirsterkari enda frétti ég síðar hjá Kristínu nágrannakonu minn (sem hefur stundað laugina lengur en ég) að þessi vigt sé ævinlega biluð fyrstu dagana í janúar. Jæja mér stórlétti en þó ekki lengi því síðast í dag las ég í mogganum að úkranínskt ofurkvendi hefði hreppt hnossið í næstu 007 mynd. Jæja ég tók þó enn aftur gleði mína því í tölvupóstinum mínum liggur boð um að koma fram í annarri kvikmynd og varð ég fljót að þiggja það í ljósi þessarar nýju stöðu (nánari fréttir af því síðar).
En þar sem ég hef gaman af sundi og ekki síður sundlaugamenningu okkar íslendina held ég ótrauð áfram að mæta í laugina. Hvar annarsstaðar en á Íslandi fer maður í sturtu með ráðherrum, syndir með keppnisfólki, klofar yfir börn á leiðinni í heita pottinn og spjallar síðan þar um menn og málefni. Síðast í kvöld stakk hvítfext genabúnt sér í laugina á eftir mér (veit að Jóhanna á Akri skilur þennan) svo félagsskapurinn er fjölbreyttur .
Af öðru er það að frétta að Hrafnhildi tamningakonu tókst að hrekkja mig eftirminnilega í dag en þegar hún hafði skemmt sér yfir því var tekin ákvörðun um að fara með Geisla í alvöru reiðtúr á morgunn. Strákurinn virðist með afbrigðum rólegur og taugasterkur
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2008 | 21:43
Komin í Húmið ....
og Pífu. Húmið er sko blá lopapeysa úr prjónablaðinu Lopi (nr. 26) og Pífa er pils úr léttlopa í sama blaði. Svo ... ég er semsagt líka dugleg að prjóna, vinsamlega láta það fréttast.
Annars fátt fréttnæmt, hestarnir voru greiddir upp úr brilljantíni í dag og síðan voru tvær veislur. Dagurinn endaði á því að við sprengdum flugeldana okkar í tilefni af afmæli Kristínar nágrannakonu okkar .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.1.2008 | 19:40
Gæjarnir í gírnum...
Eftir strembinn dag í gær svaf ég út í morgun en eins og ég reiknaði samt með voru ókunnugir karlmenn farnir að hringja fyrir hádegi. Ja hvað annað, strákarnir líta nú við þegar kona er á ferð á alvöru jeppa. Ég hef hins vegar heyrt að sumir strákar klæðist jólasveinabúningum til að fá stelpurnar til að taka eftir sér.
Við Selma kíktum á "Skytturnar þrjár". Þeir voru bara slakir og vissu greinilega hvar þeir voru. Sem betur fer eru þeir lausir við hnjúska, vonandi verða skeifurnar negldar undir þá fljótlega. Geisli var í skólanum og stendur sig vel. Kominn á skeifur á öllum fjórum fótum. Hann á eftir að skína skærar.
En nú tekur hversdagurinn við fyrir alvöru ... kúlurnar niður af trénu og Moli verður að finna sér önnur leikföng. Bara að það verði eitthvað lát á vatnsaustrinum úr himninum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)