5.2.2008 | 10:08
Orðabók vélvirkjans…
Ég var eitthvað að googgla á netinu um daginn og rambaði þá inn á síðu hjá varahlutaverslun. Fór að skoða katalóginn og komst að því að ég þurfti orðabók til að skilja hann og auðvitað fannst hún á netinu líka. Hér koma dæmi:
Gæja-legur: Legur í úrbrædda gæja
Leiðin-legur: Það var afsláttur á þeim en ég keypti samt ekkert
Kven-legur: Legur fyrir konur
Klár-lega: Lega í klár athuga þetta ef þeir verða slæmir í hófunum
Kyn-legur: Hmm
. Er enn að reyna að skilja til hvers þær eru notaðar
Skemmti-legur: Keypti kassa af þeim
Eðli-legur: Ups
eðli
. eðla
. Setti bookmark á það til öryggis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.2.2008 | 21:33
Einn af öðrum áfram dagar líða...
Úff... hvað tíminn líður hratt þessa dagana. Það liggur við að það sé kominn tími til að stimpla sig út úr vinnunni þegar FujitsuSiemens rokkurinn minn loksins hefur sig inn á innranetið.
Í dag var kennsla á Hvanneyri og á heimleiðinni kom ég við hjá Hrafnhildi, Geisla og hinum strákunum í hesthúsinu. Við höldum helst að það sé eitthvað farið að falla á skaufann á Geisla. Það passar við þá kenningu sem ég heyrði um daginn að húsmæður bæjarins hefðu vart undan að fægja silfrið sitt eftir að Hellisheiðarvirkjun kom í gagnið, svo mikil væri brennisteinsmengunin þaðan. Við höldum með öðrum orðum að fola-greyjið sé með hlandstein. Sigþór ætlar að hóa í Bjögga dýralækni eða annan sérfræðing til að pússa hann upp. Ég vona hinar húsmæðurnar í bænum standi sig betur en ég í að fægja
Annars segja íþróttaæfingarnar með jólasveinunum um helgina soldið til sín í dag, ferlega þungt að hlaupa svona í snjónum með þeim tala nú ekki um harðsperrurnar eftir magakrampann af að hlæja að tilþrifunum í þeim.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.2.2008 | 07:48
Bara gaman...
Um helgina var spáð hörkufrosti víðast um landið. Samkvæmt því sem ég gat spáð í, leit helst út fyrir að mér yrði hlýtt á Laugarvatni og því var stefnan tekin á sumarbústað þar. Þangað var komið á föstudagskvöldi í 17 stiga gaddi en inni var hlýtt og notalegt. Roger Waters og fleira frægt fólk skemmti í sjónvarpinu og á pallinum var heitur pottur sem hyggja mátti gott til glóðarinnar með að nota. Með í för var einnig gamla FujitsuSiemens vinnutölvan sem átti að taka til kostanna við undirbúining kennslu á Hvanneyri.
Fljótlega fór þó að bera á ýmsu kynlegu. Ég gerði mér grein fyrir að ég var komin í nánd við vetrarstöðvar jólasveinanna sem eru uppi við Skjaldbreið. Þeir Gluggagægir, Pottaskelfir og Gáttaþefur höfðu flúið gaddinn þar í efra og héldu nú til í sumarbústaðaðahverfinu á Laugarvatni þar sem þeir stungu nokkuð í Stúf. Þeir voru þó allir velkomnir á svæðið. Á þessum árstíma eru hins vegar ekki leyfðar myndatökur af þeim svo engar slíkar koma hér með, þessum atburðum til sönnunar.
Helgin fór semsagt í allastaði hið besta fram, allir komu aftur í bæinn sælir og glaðir á sunnudagssíðdegi með viðkomu í hesthúsinu. Smári töffari mætti þar ofjarli sínum, og verður nú vonandi sendur í sveit í vikunni með prjónvörnina með sér. Spori og Garðar voru líka á sínum stað sem og Geisli litli.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2008 | 14:41
Ásdís Arnardóttir með myndlistarsýningu
Ásdís Arnardóttir opnar myndlistasýningu á Bókasafni Háskólans á Akureyri laugardaginn 2. febrúar kl. 15:00. Sýningin mun standa til 1. mars.
Ásdís málar einstaklega skemmtilegar vatnslitamyndir eftir myndum sem teknar voru á Kodak Instamatic myndavél af einfaldri gerð á miðjum 8. áratug 20. aldarinnar. Endilega drífið ykkur á sýninguna ef þið eigið leið til Akureyrar nú tala nú ekki um ef þið eigið heima þar .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.1.2008 | 21:00
Það eykur hamingju fullorðinna...
Jæja ekkert lát að góðum dögum hér í Mýrinni . Við Selma rifum okkur upp í rauðabýtið og vorum mættar á Ásvelli - hús Hauka í Hafnarfirði - fyrir kl. átta. Þegar þangað kom voru fyrstu fréttir ... æ það gleymdist víst að láta þjálfarann vita að leikjaskipulagið var breytt. Sumsé tveir tímar sem nota hefði mátt í bólinu fóru í kaffidrykkju og morgunsjónvarp barnanna. Fréttablaðið og Mogginn voru og lesin spjaldanna á milli áður en liðið okkar fór að spila. Í mogganum rakst ég á skýringuna á því af hverju fullorðið fólk situr og segir öðrum frá hversdagslífi sínu á bloggsíðum. "Að ræða og skrifa um það sem maður er þakklátur fyrir eykur hamingju fullorðinna." Ja, segið svo að bloggið láti ekki gott af sér leiða...
.
En rúmlega tíu tók boltinn að rúlla hjá Gróttu 2 B-liði. Þær eru allar á yngra ári í 5. flokki. Fyrst var lið Fjölnis lagt að velli, síðan Grótta 1 (B-lið á eldra ári), þá Afturelding og þar með voru tryppin okkar komin í þá stöðu að eiga að leika um 1. sæti B-liða í mótinu. Þar mættu þær Stjörnunni og mikið vorum við foreldrarnir stolt af stelpunum okkar að leik loknum, gullið í höfn. Skemmtilegar stelpur sem vinna vel saman með mikinn sigurvilja (þær unnu líka strákana sem eru á sama ári í æfingaleik um daginn en þið megið ekki segja frá því ).
Ýmis gullkorn falla hjá þessum tryppum, í dag heyrðist þegar rekið var á eftir einhverri þeirra: "Betra er að vera sein og sæt - en fljót og ljót."
Á eftir brugðum við okkur í hesthúsið í skítmokstur en ekki var hundi, hestum eða fólki út sigandi í reiðtúr. Farið svo varlega í rokinu og myrkrinu, munið eftir endurskinsmerkjunum, fullorðnir, börn og setjið líka á hestana og hundana ykkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2008 | 17:31
Moli bloggar....
Jæja, nú sitjum við Moli og bloggum. Hann með mjúku loppurnar á lyklaborðinu - afsakið stafsetningarvlliur...
Já við Selma vöknuðum í býtið og brunuðum í Hafnarfjörð á handboltamót. Grótta 2 B-lið var að keppa. Þær öttu kappi við FH og Fjölni og unnu báða leikina. Selma skoraði eitt flott línumark. Því miður komst lið Selfoss ekki á svæðið en þessi úrslit þýddu að við þurfum að vera mættar kl. 7.50 á Ásvelli í fyrramálið og þá verða leiknir 3 leikir í viðbót.
En eftir hádegi fórum við í Hesthúsið og fórum í reiðtúr á Spora og Garðari. Það var nú vel hressandi. Núna er ég orðin löt og lúri með Mola en Selma er farin út i íþróttahús í tímavörslu á móti hjá strákunum. Aðeins endingarbetri battery hjá henni. Látum inn fréttir á morgun af úrslitum í handbolta
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2008 | 20:44
Þeir tóku allt mitt...
Mér gengur ekkert að klára Hermaður gerir við grammófón. Ég rakst hins var á bók á einn "Jón Sigurðsson" á útsölunni í Eymundsson sem ég kláraði á örskotsstundu. Bókin heitir: Þeir tóku allt mitt - meira að segja nafnið mitt. Þetta er saga konu sem var barn um 1920 þegar Tyrkir stóðu fyrir þjóðerinishreinsunum á Pontus Grikkjum sem bjuggu við Svartahaf. Fleiri þjóðflokkar uðru fyrir þessu t.d. Armenar og Assyrýumenn en allt voru þetta kristin þjóðabrot. Fólkinu var ýmist hreinlega slátrað eða það sent í skelfilegar dauðagöngur. Konan heitir réttu nafni Þemía en fékk nafnið Sano og síðar eftirnafnið Halo eftir að hún var "seld" manni sínum fimmtán ára gömul.
Þeim sem finnst ástæða til að gera lítið úr alþjólegum rannsóknum og könnunum sem sýna að íslendingar eru í hópi hamingjusömustu þjóða heims ef ekki sú hamingjusamasta, ættu að lesa þessa bók. Við höfum allt til alls, veðrið vitum við að er ótryggt og sjaldan hlýtt og myrkrið kemur árlega í nóvember. Þeir sem þurfa að nöldra yfir því geta flutt annað. Að öðru leyti búa fáar þjóðir við aðra eins velsæld og öryggi.
Núna er ég með á náttborðinu bókina Alek sem er saga heimsþekktrar fyrirsætu sem flúði borgarastyrjöldina í Súdan... þetta er kannske einhæft en mér finnst bara gaman að lesa bækur um fólk sem hefur lent í alvöru lífsreynslu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.1.2008 | 23:03
Til sölu klósettpappír...
Selma er með birgðir af WC pappír til sölu,,,, kaupið áður en Kínverjar fara að nota klósettpappír, þá verður hann fljótur að fara....
Svo er hún með ullarsokka til sölu fyrir Bóndadaginn....
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2008 | 22:49
Jónas og fjölskylda...


20.1.2008 | 18:20
Fallegur dagur...
Dagurinn í dag var afar fallegur hér á Stór-Seltjarnarnessvæðinu. Við Oktavía skruppum upp í Fjárborg að heilsa upp á ferfætlingana þar. Fór á bak á Smára með Spora í taumi og svo smá túr á félaga Garðari á eftir. Fleiri voru að njóta veðurblíðunnar. Á leið frá Fjárborg mættum við Garðar fjórhjóli. Ökumaðurinn stoppaði tímanlega og drap á hjólinu sem var til fyrirmyndar. Hins vegar var hann á reiðgötu eftir því sem ég best veit. Þegar við Garðar vorum á heimleið ásamt fleira fólki biðu einir 4 snjósleðar eftir að fara í gegnum undirgöngin fyrir neðan Rauðhólaafleggjarann. Ég hélt að þau væru ætluð hestum. Þeir drápu reyndar allir á sleðunum og biðu þar til við vorum komin hjá sem var líka til fyrirmyndar. Sumir hestarnir voru samt smeykir við þessi skrautlega litu skrýtnu tæki. Crossararnir hafa stundum sést á reiðstígum á þessu svæði en nú er snjór yfir öllu og fleiri á ferð. Rauðavatnið ísi lagt og vélsleðarnir leika sér þar, þangað komumst við eiginlega ekki á hestunum eins og er. Vonandi sýna allir dýrunum samt tillitssemi, stundum eru börn á hestunum eða þeir skammt komnir í tamningu. Snjórinn villir líka um því hann dempar öll hljóð. Förum öll varlega.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)