Tyllidagar og slökun...

Í gær var "fullkominn dagur" hjá Ragnari frænda mínum og hans fjölskyldu, Kristínu Gróu og syninum Ríkhard Skorra. Þau létu pússa sig saman í Grafarvogskirkju að viðstöddum vinum og ættingjum. Líklega eru skemmtilegustu ferðir sem maður fer í kirkju, þær sem farnar eru til að vera við brúðkaup. Allir eru mættir af frjálsum vilja til að samgleðjast og þeir sem athöfnin snýst um hafa mikið um alla umgjörð að segja. Presturinn hún Lena Rós Matthíasdóttir setti sinn svip á athöfnina sem og Ragnheiður Eiríksdóttir (Heiða) sem söng einsöng. Í stað brúðarmarsins var leikið á flautu lagið við vísur Vatnsenda-Rósu, Augun mín og augun þín, þegar brúðhjónin gengu inn kirkjugólfið. Sérlega vel til fundið. Á eftir var herleg veisla með mat og drykk. Selma fór með mér en Linda var þvi miður lasin heima.

En ekki gafst tími til að sitja veisluna á enda því búið var að blása til afmælisveislu í Grænmumýri um kvöldið. Fröken Selma hafði hóað saman "krúinu" til að fagna 13 ára afmælinu 1. júní. Til hamingju skvísa, orðin táningur....Cool

Í dag hafa svo verið rólegheit - gamla brýnið fór í sund, það er alltaf slakandi og nærandi. Með hinni hendinni er búið að láta þvottavélina og þurrkarann snúast nokkra hringi, allt þarf að vera í standi því húsmóðirin er að taka sig saman og pakka í tösku fyrir Póllandsferð. Þangað verður farið í býtið á þriðjudagsmorgun á aðalfund IFAP, alþjóðasamtaka búvöruframleiðenda. Hver veit nema takast megi að setja eitthvað á bloggið þaðan, allavega er spennandi að komast að hvernig pólskt þjóðfélag gengur fyrir sig.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband