16.4.2008 | 22:16
Snákar og eyrnalokkar...
Síðustu daga hef ég náð að lesa tvær bækur. Sú fyrri var bókin "Ein til frásagnar" eftir Immaculée Ilibagiza sem lifði af blóðbaðið í Rúanda 1994. Á bókarkápu segir: Þess ótrúlega saga um reynslu ungrar konu af helvíti helfararinnar mun ekki láta nokkurn mann ósnortinn." Sagan um hvernig hún lifði af ásamt sjö öðrum konum er lygi líkust. Prestuinn sem faldi þær hélt því leyndu fyrir fjölskyldu sinni sem bjó í sama húsi og gaf þeim afganga frá heimilinu til að borða. Dæmi um annan Tútsa sem lifði af bar þannig til að hann var falinn af vini sínum sem var sjálfur Hútúi og fór á daginn út til að myrða aðra Tútsa. Þetta er ótrúlegt vitni um hvernig hægt er að ala á hatri og grimmd fólk í garð nágranna sinna, leikfélaga og vina svo fólk fæst til að ganga að þeim með sveðjur til að myrða þá. Þessi saga er ævarandi áminning til mannkynsins um hve lítið þarf til að fólk snúist gegn samlöndum sínum og vinum af hatri og ótrúlegri grimmd.
Hin bókin sem ég las heitir Snákar og eyrnalokkar og fékk japönsku bókmenntaverðlaunin 2004. Athyglisverð bók um þann doða og tilfinningaleysi sem grípur um sig hjá ungu fólki sem ekki finnur tilgang með lífi sínu. Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Bjarti í flokki neon bókanna. Ég hef lesið talsvert margar bækur í þessum flokki mér til mikillar ánægju og færi bókaútgáfunni fátæklegar þakkir mínar fyrir að færa okkur sýnishorn af nýjum heimsbókmenntum í góðum þýðingum.
Athugasemdir
Bókin "Ein til frásagnar" snertir mann mjög djúpt. Ógleymanleg bók.
Anna Einarsdóttir, 17.4.2008 kl. 22:06
Takk Anna, já það ættu sem allra flestir að lesa hana. Þessir atburðir urðu í lífi venjulegs fólks sem lagði sig fram um að koma börnum sínum til manns, elskaði samfélag sitt og bar virðingu fyrir náunganum.
Erna Bjarnadóttir, 18.4.2008 kl. 21:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.