4.12.2007 | 21:37
Saumó og fleira
Í gærkvöldi var saumó hjá Stínu. Til hamingju með nýju íbúðina Stína mín, hún er falleg og rúmgóð. Alltaf gaman að hittast stelpur. Í dag stormaði ég svo á bókasafnið og nú er People's act of love mætt á náttborðið, sú sem Ásdís mælti með, segið svo að bloggið sé ekki gott til samskipta. Bókarýni síðar
Fyrir framan mig í sjónvarpinu er norsk fræðslumynd um hið gleymda borgarastríð í Burma. Fíllinn er þarna í stað dráttarvéla og fólkið af Karanættbálkinum sem telur 9 milljónir, fallegt og elskulegt og trúfrelsi ríkir. Búddamunkar spila myllu með öltöppum. Já og börning syngja We shall overcome.
Að lokum: Hef til sölu hnakk, Faxa úr Ástund. Áhugasamir hafi samband.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.12.2007 | 18:43
Ættarbönd
Í gær hélt Rúna frænka sinn árlega bröns eins og það heitir orðið á íslensku. Þessi skemmtilega venja hennar hófst fyrir nokkrum árum og var m.a. hugsuð til þess að safna saman jólagjöfum fyrir langömmu sem hafði þann sið að senda öllum afkomendum undir fermingu, lítinn jólapakka. Langamma lést í vetur, blessuð sé minning hennar. En Rúna heldur þessum skemmtilega sið áfram. Til samsætisins er boðið ömmubörnunum og þeirra börnum. Þarna gefst skemmtilegt tækifæri til að sýna sig og sjá aðra, sjá nýja frændur og frænkur og treysta ættarböndin. Yngsti afkomandinn í gær var hann Finnbjörn litli en margir fleiri voru saman komnir. Svo skemmtilega vildi líka til að tvö frændsystkin, frændi og frænka, bættust í hópinn þennan morgunn svo enn stækkar ættboginn.
Takk fyrir skemmtilegt boð Rúna, það er yndislegt að fá þetta tækifæri til að treysta böndin við öll þessi yndislegu frændsysktini.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.11.2007 | 21:50
Infidel - Heiðingi
Þá er ég búin með Infidel, reyndar fyrir nokkrum dögum. Ayan Hirsi Ali er einstaklega hugrökk kona. Það er ekki mikið meira um það að segja. Bókin lýsir æsku hennar og uppvaxtarárum í Sómalíu, Saudi-Arabíu, Ethiopiu og Kenya. Aðstæður í þessum löndum eru ólíkar og fjölskyldan þarf að aðlaga sig þeim hverju sinni. Það er út af fyrir sig ótrúlegt að þau skuli hafa gerst svo víðreist. Harkan í þessum samfélögum er fjarri því sem við þekkjum. Frjáls hugsun sem við tökum sem sjálfsagðan hlut er ékki örvuð heldur er unga kynslóðin innrætt af þeim eldri. Ferill hennar í Hollandi er með öllum ólíkindum og undirstrikar enn hve gríðarlegum kjarki Ayan býr yfir. Kjarki til að berjast fyrir mannréttindum og gegn hvers kyns misrétti. Það er skylda okkar sem viljum taka þátt í verja lýðræði og mannréttindi í heiminum að kynna okkur óþægilegan sannleika, misrétti og kúgun.
Lesið Infidel hún kemur okkur við.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.11.2007 | 22:34
Góðir hálsar...
Takk fyrir innlitið þið sem kíkið hér við.
Í gær brunuðum við mæðgur í sveitina, þeas Stakkhamar, til að heimsækja afa og ömmu (pabba og mömmu) í tilefni afmælanna 20. og 30. nóvember. Gripum eina jólastjörnu í Blómaval til að lífga upp á skammdegið.
Ekið var sem leið lá norður og vestur á Subaru legacy bifreið Kristjönu og Darra (annars hefðum við aldrei farið vegna veðurútlits, takk kærlega fyrir lánið).. Við vorum fjórar á ferð, því auk okkar Ernu, Lindu og Selmu var fröken Nína handboltaskvísa, með í ferð. Við mættum á slaginu lambalæri með brúnni sósu og auðvitað ís og bláber í eftirmat. Frú Ásta slær aldrei af í eldhúsinu, takk fyrir matinn. Eftir mat var brunað í fjós og önnur útihús, þar voru fyrir nautgripir á ýmsum aldri allt frá pelakálfi upp í lífsreyndar kýr sem muna tímana tvenna. Einnig voru hestar komnir á hús. Þar mátti finna hana Kviku litlu eins og ég kalla hana til aðgreiningar frá ömmunni, blessuð sé minning hennar, hún er á málverki inni í stofu hjá mér og allar dásamlegu minningarnar um hana gleymast ekki. Einnig skvísurnar Hátíð og Blíða sem eru vonandi upprennandi ræktunar hryssur, ásamt fleiri góðum hestum. Nefni sérstaklega hann Gust hennar Laufeyjar, mikinn karakter sem heillaði skandinaviska gesti í sumar og fleiri ef ég man rétt.
Já á eftir var stokkið að heilsa upp á liðið úti á túni. Þar var hann Garðar fremstur í flokki. Mikið var gaman að sjá að hann er orðinn sáttur við nýja umhverfið og leyfir að honum sé klappað og kjassað á alla lund. Honum leið svo illa fyrst í vor þegar hann átti enga vini. Svo voru þarna þrjú folöld ásamt mæðrum sínum. Öll velættuð og falleg. En athygli mín beindist auðvitað öll að henni Þernu, hún er svo mikil drottning. Tekur alltaf á móti mér eins og við hefðum hist í gær. Er með folaldið sitt hjá sér og sýnir mér. Yndislegur karakter.
En svo tók nú steininn úr, jú til að launa matinn þá buðumst við kaupstaðavargarnir til aðaðstoða við að smala fénu (alls 15 stykki). Tja það héldum við nú að væri létt verk og löðurmannlegt. Pufff..... þvílíkir asnar. Þær hlupu jú af stað en í allt aðra átt en ábúendur og smalamenn höfðu hugsað sér. Selma mátti taka gott skokk á eftir þeim upp allan Bleiksteinsás. Síðan var þeim beint niður í Leirlækjarholt þar sem þær tíndu alla útúrkróka sem fyrirfundust. Eina glætan í því sem ég held að hafi verið glópalán frekar en greind var að þær hlupu fram á einn félaga sinn sem var þar afvelta. Barg það eflaust lífi þess lambs. Og jújú suður á Stekkjarhöfða fannst þeim sjálfsagt að skokka líka. Þá komu Garðar og félagar til skjalann og stöðvuðu þessa heimskulegu útrás. En jæja, á endanum komust þær inn í hús. Ábúendur eru vinsamlega beðnir að láta okkur vita hvenær á að hýsa á næsta ári, við komum í heimsókn daginn eftir.
Að lokum var drukkið kaffi og snúðar nammmmm.......og brunað í bæinn. Þá var komið skítaveður en allt slapp til á þessum fína Subaru.
Góðar stundir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.11.2007 | 18:57
Handbolti
Um helgina notaði ég ársmiðann minn á handboltaleiki 5. flokks kvenna í Gróttu. Grótta mætti með fimm lið til leiks á deildamótinu sem fram fór hjá Fram í Safamýrinni. Glæsilegt hjá þeim enda er Hildigunnur frábær þjálfari og heldur afar vel utan um stelpurnar. Takk Hildigunnur fyrir þitt frábæra starf.
Selma keppti með B-2 liði Gróttu í 3. deild B liða. Skemmst er frá því að segja að stelpurnar unnu alla sína leiki með nokkrum yfirburðum og færast því væntanlega upp í 2. deild á næsta móti. Til hamingju stelpur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.11.2007 | 20:47
Moli
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.11.2007 | 20:49
Hestamennskan nálgast
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2007 | 22:29
Bókmenntagagnrýni
Góðir hálsar: Þá er ég byrjuð á Infidelity eftir Ayaan Hirsi Ali. Byrjunin lofar góðu. Um daginn las ég hins vegar íslenska bók og hef sjaldan orðið jafn hissa já á hverju? Bókin var Aldingarðuinn eftir Ólaf Jóhann og ég var alveg "kjaftstopp" yfir því hve mikið lof þessi bók hlaut miðað við það sem ég fékk út úr lestri hennar. Fyrir utan stirðbusalega skrifuð samtöl og lýsingar t.d. á hesthúsahverfi í Reykjavík sem helst var að finna að höfundur hefði tæplega komið í þá fannst mér ekkert uppbyggjandi sitja eftir af lestrinum. Jú nema kannske að sögupersónurnar virtust allar hafa strandað einhversstaðar á að vinna úr árekstrum í lífinu og það sæti í þeim alla ævi eða amk þangað til saga hvers og eins endaði í bókinni og ekkert benti til að betri dagar væru framundan.
Ef ykkur langar að lesa áhugaverðan höfund þá mæli ég með Haruki Murukami sem er japanskur og skrifar mjög góðar bækur. Góða skemmtun!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.11.2007 | 09:02
Fyrsta færslan
Það er þrennt sem ég ætla að blogga sem fyrstu færslu:
1. Lesið bókina "A long way gone" eftir Ismael Beah. Hann var barnahermaður í Sierra Leone í borgarastyrjöldinni þar á síðasta áratug. Skelfilegur sannleikur sem skiptir hugsandi fólk máli. Það sem bjargaði honum var ótrúleg heppni og náungakærleikur.
2. Vissuð þið að það er hægt að tala ókeypis við vini ykkar hvar sem er í heiminum með hjálp gmail.com og googletalk. Ef þú átt vin í Bretlandi eða Barentshafi, Grímsey eða Grænumýri gæti þetta verið fyrir þig.
3. Ég er nýbúin að vera í USA í 9 daga með nokkrum Íslendingum. Það kom mér verulega á óvart að fólk skyldi ekki kunna notkun orðisins "please" í samskiptum við þjónustufólk. Í versta tilviki varð uppskeran af þeim ruddaskap sem þjónarnir upplifiðu af þessu léleg þjónusta og kuldalegt viðmót. Kæru vinir: Rétt notkun þessa litla orðs mun fjölga mjög brosum sem þið fáið frá þeim sem þið þurfið að eiga samskipti við og er alveg ókeypis.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)