Frækinn frambjóðandi og umönnun aldraðra...

Dætur mínar eru félagsmálafrömuðir. Linda bauð sig s.l. vetur fram til að leiða myndlistaklúbbinn í MR og í ritstjórn Loka. Hún fékk kosningu ásamt félögum sínum í bæði verkefnin og hefur í mörgu að snúast við þessi verkefni. Til viðbótar er hún að passa gömlu konurnar á Frúardeildinni á Grund aðra hverja helgi. Ekki veitir af að unglingar afli sér vasapeninga á þessum síðustu og verstu tímum. Hún er harla dugleg við þetta og líkar vel að sinna gömlu konunum

Handboltakappinn Selma bauð sig svo fram sem meðstjórnanda í nemendaráð Valhúsaskóla fyrir 8. bekk. Hún lagði mikið á sig við að semja ræðu sem var svo flutt í dag í Miðgarði yfir nemendum skólans. Ég er nú nokkuð stolt af þessu framtaki hjá þrettán ára stelpu.

Semsagt þó krónan falli þá er gott gengi á mínum stelpum....


Verðmerkingar

Ágæta blað

Undanfarið hef ég ítrekað orðið fyrir því að verðmerkingar í hillum matvöruverslana standast ekki. Skyldur verslana í þessu eru skýrar og réttur neytenda sömuleiðis. En það er auðvelt að slæva okkur neytendur á tíma óðaverðbólgu. Við getum jafnvel farið að vorkenna reynslulitlu starfsfólki sem þarf að kalla í verlsunarstjóra til að gera sjálfsagðar leiðréttingar fyrir smáupphæðum. En réttur okkar er ljós. Ég skora á Morgunblaðið að standa vaktina með okkur neytendum og fjalla um þessi mál. Einnig á alla þá sem starfa að málum neytenda að veita verslunum allt það aðhald sem þarf til að þessi mál verði í lagi. Ég tel eins og staðan er í dag að þetta sé eitt mesta hagsmunamál neytenda.

 

/Birtist í Velvakanda Morgunblaðsins 26. september


Enginn ósnortinn...

Fjáröflunn handboltakappans er hafin. Úrvals EDET WC-pappír á boðstólum sem lætur engan ósnortinn Tounge

Tekið við pöntum á Kærleiksheimilinu í Grænumýri.... 


Lausafé smalað...

Í dag var stóri dagurinn. Mæting kl. átta í Baðhúsið í Fjárborg. Þar biðu borð hlaðin smurðu brauði og kökum. Þegar allir höfðu troðið vambir sínar vel var hrossum raðað á bíla og ekið upp á Nesjavallaveg til móts við Mosfellinga sem smala norður af afréttarlandinu. Ég naut þess að fá sama hest og í fyrra hann Gjafar frá Kyljuholti. Hann er frábær reiðhestur og það sem enn betra er, kann til verka í smalamennskum.

Smölunin gekk þokkalega, mætti þó segja fólki meira til í upphafi til hvers er ætlast af því. Nokkuð af fé gafst upp eða var með óþekkt enda sumt í tveimur reifum blautt og þungt. Gjafar mátti nokkrum sinnum taka á því en við náum vel saman og óþekktarskjáturnar máttu lúta í lægra haldi fyrir okkur og öðrum lausafjársmölum. Til að krydda daginn fengum við tvö hressileg haglél á okku, sussu seí.

Niður í rétt vorum við komin milli 3 og 4 og þegar aftur var komið í Baðhúsið beið salkjöt og baunir, súkkulaðikaka og kaffi.  Frábær dagur og gaman að taka þátt í þessu verkefni.


Evran í gær...

Jæja hefði nú ekki verið tilvalið að taka upp Evru í gær FootinMouth Hvað ætli þjóðarbúið fái mikið fleiri Evrur í dag fyrir krónurnar sínar.

Höfðuatriði er að auka tiltrú á krónunni um þessar mundir og það verður ekki gert með því að klifa stöðugt á að hún sé ekki nógu góð fyrir okkur. Hinum títt nefndu sérfræðingum væri nær að snúa sér að því.


mbl.is Krónan styrkist um 3,17%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn um kastljós...

Viðtal Jóhönnu Vilhjálmsdóttur við Össur Skarphéðinsson í gærkvöldi er enn eitt dæmið um lélega fréttamennsku þar á bæ. Össur rak viðmælanda sinn hvað eftir annað á gat og skríkti svo af ánægju yfir því. Jóhanna klikkti svo út með að segja : “Það er ofboðslega gott og uppbyggjandi að heyra þessi orð." þegar ráðherrann lét dæluna ganga um bjartsýni sína og réttsýni. Góð færsla á jonas.is um þetta.

Nær væri að nota eitthvað af fjármunum RÚV í að texta fréttir fyrir heyrnarskerta eins og bent er á í leiðara mbl í dag.


Vandmeðfarin karfa...

Enn heldur ASÍ áfram að birta verðbreytingar á ímyndaðri matarkörfu sinni. Þetta eiga að vera einhverskonar ímynduð helgarinnkaup hjá ímyndaðri fjölskyldu. Þessi fjölskylda kaupir alltaf sama kjötið (lambalæri í helgarmatinn), sama brauðið o.s.frv. Þessir útreikningar eru því villandi um heildarverðþróun á matvörum. Vísitala neysluverðs er hins vegar háþróað tæki til þess brúks sem tekur tillit til verðbreytinga á margfalt fleiri vörutegundum og leitast þannig við að endurspegla öll matvöruútgjöld heimilanna, ekki bara helgarinnkaupin.

Hvað verðsamanburð og breytingar milli verslanir varðar eru þeir augljósu annmarkar að verslanir vita hvaða vörur eru í þessu og er þar að auki í lófa lagið að hækka verð þeirra strax og birting þessara upplýsinga ASÍ hefur farið fram. Það er nefnilega svo að verlsanir eru sífellt að breyta verði (samanmber færslu mína um rangar hillumerkingar) og um leið því á hvaða vörum þær taka helst inn tekjur sínar.

Neytendur verða með öðrum orðum að vera sjálfir virkt aðhald verslana.


mbl.is Matarkarfan hækkar um 5-7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn af fréttamati...

Hvenær ætla fjölmiðlar að hætta að lepja lapþunnar skýringar greiningadeildanna á efnahagsstöðunni. Af hverju er ekki talað við óháða aðila eins og hjá Háskólunum, Friðrik hjá Háskólanum í Reykjavík eða sérfræðinga á Hagfræðistofnun. Ef eignir heimilanna jukust um 32% á sama tíma og hlutabréf hækkuðu um 34% að meðaltali á ári (2004-2007) og húsnæðisverð um tugi prósenta, ja þá væri eitthvað skrýtið ef eigninrnar ykjust ekki. En hvað gerist þá þegar eignir heimilanna lækka vegna þessa að helstu eignir þeirra rýrna í verði af markaðsástæðum einum. Jú eignir rýrna en skuldir halda áfram að hækka ... og hækka.... og hækka vegna verðtryggingar og vísitala neysluverðs heldur jú áfram á uppleið meðan krónan er í frjálsu falli. Í efnahagsreikningi heitir þetta að eigið fé rýrni. Ég ætla ekki að selja húsið mitt eða bílinn til að borga skuldirnar en þegar ég tók lán til húsnæðiskaupa reiknaði ég alls ekki með að verðtryggingin ein myndi hækka skuldirnar um milljónir á ári.


mbl.is Staða heimilanna afar góð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendavarsla....

Í verðbólgunni sem nú geysar hækkar vöruverð í verslunum ört. Ég hef hvað eftir annað orðið fyrir því að annað verð en merkt hilluverð, er innheimt á kassa. Ég brýni neytendur til að gefa ekki eftir að að láta leiðrétta svona sem og að bera saman kassastrimla og hilluverð. Aðhald neytenda nú er mjög mikilvægt. Enn meira pirrandi er þó þegar helgartilboð eru merkt á hillum, fram í vikuna á eftir en gilda síðan ekki við kassa. Síðast í gær lét ég leiðrétta slíkt í Melabúðinni, sem annars er mín uppáhaldsverslun því hvergi sem ég þekki til er annað eins vöruúrval á fermetra.

Stöndum þétt saman og snúum bökum saman....


Hver er spurningin?

Fyrirtæki sem selja þjónustu við að gera skoðanakannanir eru líka sérfræðingar í að semja spurningar, um hvað er spurt og hvað er ekki spurt.

Er spurt hvort viðkomandi vill ESB - aðild?

Er spurt hvort viðkomandi finnst ástand efnahagsmála óþolandi?

Er boðið upp á aðrar leiðir til lausnar á því? Kannske nýja ríkisstjórn?

Fyrir mér er fréttin engin og vitna ég þar m.a. til viðtals í Fréttablaðinu í dag við sænskan ráðherra sem ítrekar enn og aftur að evru aðild án ESB aðildar sé óraunhæfur möguleiki. Reyndar spyr ráðherrann undir rós hvort nálgun Íslendinga að umræðu um ESB aðild sé ekki á þeim nótum að þeir

vilji fá að plokka kostina út......
mbl.is Meirihluti vill evru hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband