Af hækkandi matvælaverði...

Varanleg hækkun á matvælaverðiSkýrsla OECD og FAO 

Þann 29. maí birtu OECD og FAO skýrslu um horfur í landbúnaði 2008 til 2017. Megin niðurstaða skýrslunnar er að verð á matvælum sé nú í sögulegu hámarki og komi til með að lækka eitthvað á ný. Engu að síður spá þessar stofnanir því að meðalverð á helstu búvörum verði umtalsvert hærra næstu tíu árin en það var á síðasta áratug. Ýmsir þættir sem valdið hafa hækkunum á matvælaverði undanfarin misseri munu áfram stuðla að háu verði til lengri tíma litið.

Sú gríðarlega hækkun sem orðið hefur á matvælaverði síðan 2005/2006 er að hluta til afleiðing óhagstæðs veðurfars í mikilvægustu kornræktarhéruðum heimsins sem hafa síðan áhrif á aðrar jarðræktarafurðir og búfjárafurðir vegna samkeppni um land. Þessi staða er ekki ný af nálinni en hefði ein og sér nægt nú, í ljósi birgðastöðu, til að hækka afurðaverð umtalsvert. Þetta hefur hins vegar gerst áður og mun gerast aftur.

Það eru hinsvegar öfl framboðs og eftirspurnar sem munu leiða til þess að spár sérfræðinga hljóða upp á varanlega verðhækkun til lengri tíma litið. Þegar litið er til framboðs á landbúnaðarvörum, spáir OECD að aukin uppskera á flatareiningu hafi meiri þýðingu í auknu framboði en stækkun ræktarlands. Aukin afurðasemi búfjár eykur einnig framboð á mjólk og kjöti. Á eftirspurnarhliðinni valda breytt matarræði, flutningar fólks til borga, hagvöxtur og fólksfjölgun aukinni eftirspurn eftir landbúnaðarvörum. Ofan á þetta bætist eftirspurn eftir fóðri til eldsneytisframleiðslu. Þó þessi eftirspurnarþáttur vegi minna en aukin eftirspurn eftir mat og fóðri, þá er þetta stærsta nýja uppspretta eftirspurna í áratugi og vegur því þungt í verðhækkun landbúnaðarvara.

Þannig er því spáð að verð á nautakjöti og svínakjöti hækki um 20% milli meðaltals áratugarins 1998-2007 til meðaltals áratugarins 2008-2017. Á sama hátt hljóða spár upp á 30% hækkun á hrásykri, 40-60% hækkun á hveiti, maís og undanrennudufti og yfir 60% hækkun á smjöri og olíufræjum og yfir 80% hækkun á jurtaolíu. Þrátt fyrir þetta er rétt að benda á að spáð er verðlækkunum frá því verðlagi sem nú ríkir. Hins vegar gera spárnar ráð fyrir meiri verðsveiflum í framtíðinni en hingað til. Eftirspurn verður sömuleiðis minna viðkvæm fyrir verðbreytingum til framleiðenda þar sem hlutur hráefna í útsöluverði til neytenda fer lækkandi og eftirspurn frá iðnaði vex; veðurfar og búvöruframboð kann að verða breytilegra en áður með lofstlagsbreytingum og spákaupmenska fjárfestingasjóða sem ekki tengjast viðskiptum með landbúnaðarvörur í framvirkum samningum minnkar eða eykst eins og hagnaðarmöguleikar bjóða upp á. 

Meðal annarra niðurstaðna í skýrslu OECD er: 

  • Bæði neysla og framleiðsla eykst hraðar í þróunarlöndum á öllum búvörum nema hveiti. Árið 2017 er reiknað með að þessi lönd séu ráðandi í viðskiptum með helstu búvörur.
  • Hátt verð mun koma til góða bændum í þróuðum og þróunarlöndum sem eiga viðskipti með afurðir sínar á almennum markaði. Hins vegar er ólíklegt að margir bændur í þróunarlöndum, sem ekki tengjast mörkuðum, njóti þessa ávinnings.
  • Búist er við áframhaldandi spennu á kornmarkaði þar sem ólíklegt er að birgðir korns nái sömu stöðu og á síðasta áratug.
  • Neysla á hvers kyns jurtaolíu mun aukast meira en á öðrum jurtaafurðum á næstu 10 árum. Þessi þróun er knúin áfram bæði af eftirspurn eftir matvælum og lífeldsneyti.
  • Reiknað er með að hlutdeild Brasilíu í kjötútflutningi muni vaxa í 30% á árinu 2017.
 

Í fréttatilkynningu með skýrslunni kemur fram að afleiðingarnar komi þyngst niður á fátæku og svöngu fólki. Íbúum í stórborgum fátækra landa sem eru háðir því að kaupa allan mat. Matvælahjálp þarf að koma til en til lengri tíma þarf að örva framleiðni í landbúnaði í þessum löndum og efnhagsvöxt almennt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband