22.3.2008 | 17:20
Áskorun eða hvað...
Ég veit því miður ósköp lítið um Tíbet. Úr örfáum heimildamyndum, fréttaskotum og blaðalestri hef ég þá hugmynd að menning þess sé háþróuð og þjóðin harðgerð og hugrökk. En hver er saga Tíbets sem sjálfstæðs lands? Verð greinilega að kanna það. Tíbetar ætla sér greinilega að notfæra sér að athygli heimsins beinist að Kína næstu mánuði.
Hundruð mótmæltu í London | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sæl. Hérna set ég inn góða pistla og fróðlega um Tíbet eftir Jón Val Jensson guðfræðing og ættfræðing. Það er meira efni um Tíbet á bloggsíðunni hans sem er vert að líta á.
Laugardagur, 15. mars 2008
Biðjum fyrir Tíbet! (Stutt söguágrip fylgir)Kínverjar virðast ætla að beita harðýðgi og kúgun sem fyrri daginn gegn eindregnum sjálfstæðisvilja Tíbetbúa. Heimurinn þarf að biðja fyrir þeirri hugrökku, þjáðu fjallaþjóð á þessum erfiðu tímum, rétt eins og beðið var fyrir Búrmaþjóð [1], þegar herforingjarnir voru að bæla niður mótmæli almennings og munkanna. Ég vísa til fyrri skrifa minna um Tíbet hér(Björk í Sjanghæ) og hér í Mbl. 2004 (endurbirt hér á þessu vefsetri), þar sem er gagnlegt yfirlit um forsögu mála og þær hörmungar sem dundu yfir Tíbetbúa á seinni hluta 20. aldar vegna innrásar og hernáms Kínverja, sundurhlutunar landsins og þjóðarmorðs-ofsókna. En óeirðir og valdbeiting í kjölfar veikburða andspyrnu fólksins í höfuðborginni Lhasa, sem Kínverjar reyna að berja niður jafnvel þegar skammt er til Ólympíuleikanna í Peking, vekja ekki aðeins áhyggjur Dalai Lama, heldur allra þeirra, sem annt er um þjóð hans. Nú er reyndar talið (m.a. í BBC nú eftir hádegið), að a.m.k. 100 manns hafi fallið í þessum átökum. Stjórnin á Taívan hefur harðlega gagnrýnt þessar aðfarir hinna kommúnísku yfirvalda í Peking.
Kínversk yfirvöld geta ekki lengur látið sem allt sé gott og með felldu með nýlendustjórn þeirra yfir Tíbetbúum eins og þau reyndu þó um daginn, þegar þau mótmæltu af þjósti tilkalli Tíbeta til sjálfstæðis, í tilefni af hugrökkum vitnisburði Bjarkar á tónleikunum í Sjagnhæ, en þá hélt kínverska sendiráðið því fram, að Tíbet hefði alltaf verið ófráslítanlegur hluti Kína – sem er í algerri mótsögn við staðreyndir. Líti menn á greinina um Tíbet í Encyclopædiu Britannicu, sjá menn t.d., að á 6.–8. öldeflist Tíbet sem stórveldi, sem jafnvel gerði Kínverja skattskylda sér og gerði innrás inn í höfuðborg Kína. Á 13. öld kemst Tíbet undir áhrif og yfirráð Mongóla, en það hafa Kínverjar (reyndar frá því um 1950) – sem sjálfir voru undirokaðir af Mongólum! – reynt að túlka (og halda þeirri túlkun að umheiminum) sem yfirráð Kína yfir Tíbet! Frá seinni hluta 14. aldar var Tíbet sjálfstætt á ný, en á seinni hluta 16. aldar komst það aftur undir áhrif Mongóla. Snemma á 18. öld fara Kínakeisarar af mansjúrísku ættinni að hlutast til um mál Tíbets, voru viðurkenndir þar sem yfirvald og sendu þangað nokkrum sinnum her á þeirri öld, bæði til að stöðva borgarastríð 1728, koma á kyrrð eftir óeirðir í kjölfar vígs stjórnmálaleiðtoga þar 1750 og til að hrinda innrás Gúrkha frá Nepal 1792. Þrátt fyrir það héldu Tíbetar að miklu leyti eigin sjálfræði, og þegar veldi mansjúrísku ættarinnar fór hnignandi, notuðu Tíbetmenn tækifærið til að auka sjálfstæði sitt, þótt þeir viðurkenndu enn keisarann, sem þó hafði engan mátt til að liðsinna Tíbet í stríðum við tvö nágrannaríki 1842 og 1858. Bretar reyndu að ná áhrifum í Tíbet í byrjun 20. aldar með beinni íhlutun, viðurkenndu þó yfirráð Kínverja 1906, en eftir stofnun lýðveldis í Kína 1911–12 lýstu Tíbetbúar yfir sjálfstæði sínu og tókst að verja sín eigin landamæri að Kína (m.a. í vopnaátökum 1931) allt til 1950, þegar Kína gerði innrás í austurhluta landsins eftir að hafa gefið út yfirlýsingu um "frelsun" þess 1949. Sorglegt framhald þessarar sögu má lesa í fyrrnefndri grein minni.
Tíbetar hafa ekki kínversku sem móðurmál og hafa sína eigin, sérstæðu menningu og aldagamla arfleifð. Umheimurinn ætti að viðurkenna fullan og óskiptan rétt þessarar merku þjóðar til sjálfstæðis.
____________________
[1] Um Búrma, sjá þessa grein mína, þessa, þessa, þessa og þennan pistil. Höfum í huga, að Pekingstjórnin er helzti bakhjallur herforingjastjórnarinnar í Búrma, rétt eins og harðstjórnar islamista í Súdan – vegna olíuhagsmuna Kína.
Miðvikudagur, 19. mars 2008
Lögregluríkið skelfur ... vegna hinna varnarlitlu í TíbetMiklir liðsflutningar eru nú frá Kína til Tíbets. Ætlunin er að kæfa uppreisn Tíbeta í fæðingu. Ólympíuárið kann að verða banabiti einræðisríkisins. Óvenjulegt er, en smitandi, að sjónvarp þar sýni uppþot fólks. Vilji Tíbeta birtist í því að rífa niður kínverska fánann og draga tíbezka fánann að húni. Herseta Kínverja er hötuð í landinu. Við megum búast við enn meiri þjóðernishreinsunum í kjölfar þessa. En viljinn til frelsis kraumar undir.
Ýmsir kunna að telja umskipti mála nær ómöguleg að svo stöddu, en minnumst þess, að fæstir bjuggust við hruni keisaraveldisins í Rússlandi – enn síður falli sovétkommúnismans, fyrr en þetta skyndilega gerðist. Frelsið verður síður hamið nú, eftir að kapítalisminn hefur fengið að leika lausum hala í Kínaveldi og fólk hefur komizt að mannréttindabrotunum – við námsmennina á Torgi hins himneska friðar, við meðlimi Falun Gong og að vanrækslunni við fólkið í kuldahéröðum Norður-Kína í vetur og nú hinum harðneskjulegu viðbrögðum kínverskra stjórnvalda við sjálfstæðishreyfingu Tíbeta – ásamt sífelldri niðurþöggun sannleikans og yfirhylmingu mála.
Lítum á nokkur viðurstyggileg dæmi um kúgun Kínverja:
Íslendingar öðluðust sjálfstæði á ný eftir langa baráttu. Nú megum við horfa upp á 5 til 6 milljón* manna þjóð hneppta í fjötra af ráðamönnum þess lands, sem margir okkar helztu menn sækjast eftir að eiga viðskipti við. Forsetinn sjálfur þagði um mannréttindamál í síðustu heimsókn sinni þangað, eins og Íslandsdeild Amnesty International hefur gagnrýnt, en ekki fengið skýringar á. Um það var rætt við Jóhönnu K. Eyjólfsdóttur í allýtarlegri frétt Rúv. á 7. tímanum í kvöld. Ég hvet þá, sem geta, til að hlusta á þá frétt á vefslóðinni. Mannréttindabrot Kínaveldis slá flestum ríkjum við í heiminum í dag.
Við Íslendingar ættum að taka afstöðu í þessu máli. Góð byrjun væri að hóta að sniðganga Ólympíuleikana og krefjast sjálfstæðis fyrir Tíbet, sem verðskuldar það miklu fremur en Kosovo, bæði af sögulegum ástæðum, vegna sérþjóðernis íbúanna og vegna blygðunarlausrar nýlendustefnu kúgaranna. Við þurfum ekki að óttast að missa spón úr aski okkar vegna viðskiptamálanna – fyrirtæki eru nú á flótta frá Kína til Suðaustur-Asíu o.fl. landa – ekki af hugsjónaástæðum, heldur vegna dýrtíðar í Kína, sem gerir landið síður samkeppnisfært en ýmis önnur þriðjaheimslönd, eins og frá var sagt í nýlegri frétt í Mbl.
Birgitta Jónsdóttir listakonahefur ásamt öðrum staðið fyrir mótmælum utan við sendiráð Kína að Víðimel 27. Þar verður mótmælafundur nk. laugardag kl. 15. Gerum þann fund að fjöldasamkomu, Tíbetbúum til stuðnings.
PS. aðfn. 21/3: Ég vil sérstaklega mæla með því, að menn lesi skírdags-fréttagrein Morgunblaðsins um ástandið í Tíbet, eftir Boga Þór Arason, en þar eru athyglisverðir hlutir og vel kafað í málin. Sú grein ber yfirskriftina Kínverjar vilja halda Tíbet til að tryggja öryggishagsmuni sína, en hefur miklu efnismeira innihald en sá titill virðist gefa í skyn – og á að vera læsileg gegnum þennan tengil.
–––––––––––
* Árið 2000 voru Tíbetar taldir 5.400.000[123], en voru hins vegar 6,330,567 árið 1959[122], segir Wikipedia eftir góðum heimildum. Á meðan íbúafjöldi Kína tvöfaldaðist og mannkynið í heild þrefaldaðist á 41 ári, þá fækkaði Tíbetum samkvæmt því um nær eina milljón! Útlagastjórn Tíbets telur Kínverja í landinu nú orðna þar í meirihluta, en Pekingstjórnin neitar því. Útlagarnir segja, að fastahermenn í landinu séu ekki taldir með hjá kínversku yfirvöldunum og heldur ekki mikill fjöldi farandverkafólks frá Kína.
Jón Valur Jensson
Predikarinn - Cacoethes scribendi , 22.3.2008 kl. 17:48
Predikarinn stórtækur, að setja hér inn heila vefgrein eftir mig! Þakka samt traustið, Predikari, og sendi þér og Ernu kveðju og ósk um gleðilega páska.
Jón Valur Jensson, 23.3.2008 kl. 16:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.