Norðan fyrir kristni og hnífapör

Ýmislegt hefur drifið á daga manns í gegnum tíðina. Svo því sé til haga haldið er ég ættuð norðan fyrir kristni og hnífapör þ.e.a.s. móðurætt mín öll fædd og uppalin norðan Hólmavíkur. Þangað fréttist ekki af siðaskiptum fyrr en 50 árum eftir að þau fóru fram og þar var mönnum í lófa lagið að borða með guðsgöfflunum.

Það vildi mér því til happs að kornung fékk ég ásamt samnemendum mínum í Laugargerðisskóla kennslustund í notkun hnífapara. Þessi kennslustund líður þeim seint úr minni sem til sáu. Ég hef sennilega verið um 9 ára gömul þegar þetta bar til. Frú Rósa Þorbjarnardóttir þá kennari og prestfrú í Söðulsholti, dró þá fram  borð í matsalnum, settist við það með tilhlýðilegan borðbúnað fyrir framan sig og sýndi okkur fávísum sveitavargnum hvernig halda skyldi á gaffli í vinstri hendi og hníf í þeirri hægri og bera sig að við að skera aðalréttinn með hnífnum og raða upp í sig með gafflinum. Auðvitað kenndi hún okkur líka að halda á skeið og borða súpu á eftir. Með þessa fræðslu í farteskinu hefur mér síðan vegnað nokkuð vel í almennu borðhaldi. Frú Rósa kenndi okkur þó ekki flóknari atriði eins og hvoru megin brauðdiskurinn er í fínni veislum og því varð mér einu sinni á að rífa í mig brauðsneiðina hans Alla í Klausturseli þegar við sátum saman í einhverri veislu hér um árið. Wink


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er betra að hafa það á hreinu hvort brauðið er á hægri eða vinstri hönd,það munaði ekki miklu í gær að þú hefðir tekið brauðið frá sessunaut þínum á hægri hönd,,,,,,,,,það var með svo miklu birki á,,,,,,,,,,,,,,,,,en það er gott að þú fékkst kennslu í þessum siðum.............ha

Galdrakallinn (IP-tala skráð) 2.3.2008 kl. 23:09

2 Smámynd: Anna Einarsdóttir

  Hvernig fór fyrir honum Alla í Klausturseli..... mátti hann ekki alveg við því að vera brauðlaus eina kvöldstund ? 

Anna Einarsdóttir, 2.3.2008 kl. 23:16

3 Smámynd: Erna Bjarnadóttir

Alli er allavega enn í ágætum holdum

Erna Bjarnadóttir, 3.3.2008 kl. 08:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband