20.1.2008 | 18:20
Fallegur dagur...
Dagurinn í dag var afar fallegur hér á Stór-Seltjarnarnessvæðinu. Við Oktavía skruppum upp í Fjárborg að heilsa upp á ferfætlingana þar. Fór á bak á Smára með Spora í taumi og svo smá túr á félaga Garðari á eftir. Fleiri voru að njóta veðurblíðunnar. Á leið frá Fjárborg mættum við Garðar fjórhjóli. Ökumaðurinn stoppaði tímanlega og drap á hjólinu sem var til fyrirmyndar. Hins vegar var hann á reiðgötu eftir því sem ég best veit. Þegar við Garðar vorum á heimleið ásamt fleira fólki biðu einir 4 snjósleðar eftir að fara í gegnum undirgöngin fyrir neðan Rauðhólaafleggjarann. Ég hélt að þau væru ætluð hestum. Þeir drápu reyndar allir á sleðunum og biðu þar til við vorum komin hjá sem var líka til fyrirmyndar. Sumir hestarnir voru samt smeykir við þessi skrautlega litu skrýtnu tæki. Crossararnir hafa stundum sést á reiðstígum á þessu svæði en nú er snjór yfir öllu og fleiri á ferð. Rauðavatnið ísi lagt og vélsleðarnir leika sér þar, þangað komumst við eiginlega ekki á hestunum eins og er. Vonandi sýna allir dýrunum samt tillitssemi, stundum eru börn á hestunum eða þeir skammt komnir í tamningu. Snjórinn villir líka um því hann dempar öll hljóð. Förum öll varlega.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.