26.12.2007 | 17:10
Ég er víst dugleg að baka...
Sá armi kvittur var lengi á kreiki að ég væri ekki sérlega húsleg eða dugleg að baka. Hann gæti hafa komist á kreik á þeim árum sem ég hafði mestan metnað til að keyra dráttarvélar og takmarkið þar var að fara með sjálfhleðsluvagninn suður á Stekkjarhöfða, fylla hann af heyi og koma því heim í hlöðu, sem ég nota bene gerði áður en ferli mínum sem dráttarvélarstjóra lauk. Á þeim tíma hafði ég lítinn áhuga á hjónabandssælubakstri og skúringum. En svo rammt kvað að þessu að fyrir nokkrum árum stóð Rán frænka mín bísperrt inni í eldhúsi hjá mér og tilkynni að mamma sín segði að ég væri svo ódugleg að baka! Ja þá veit maður það og kannske komin skýringin á því af hverju það er líkast því að ég sé teflonhúðuð þegar kemur að því að fá karlmenn til að tolla við mig. Leiðin að hjarta þeirra ku víst liggja um magann eða hvað? Nema hvað nú á síðastliðið Þorláksmessukvöld kemur upp úr dúrnum að enn er eftir að baka maregnstoppa með eftirréttinum á aðfangadagskvöld. Hringjum í Sigrúnu til að fá uppskriftina kvað við í Laufeyju og mömmu. Sallaróleg mælti ég faglega: Það er nú bara 300 g af sykri og 3 eggjahvítur. Ég get svarið að þær urðu laglega hissa ekki síst Laufey. Hvernig ég kynni þessa uppskrift! En strákar mínir ég tilynni hér með: Ég er víst dugleg að baka.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.