25.12.2007 | 18:52
Jólahátíð
Ég er svo heppin að koma á æskuheimili mitt um hver jól með erfingjunum mínum. Hluti af þeim forréttindum að hafa alist upp í sveit og nú hálfníræð, eiga foreldra á lífi við góða heilsu. Við runnum í hlað á Þorláksmessukvöld eins og áætlað hafði verið. Um kvöldið sýndi ég dætrum mínum hvernig móðir-dóttir módelið virkar, prílaði upp um glugga og veggi við að koma upp síðustu seríunum. Síðan var jólatréð skreytt. Mamma dró fram jólaskrautið sitt en ég varð hálfskrýtin á svipinn smá stund þegar ég fór að tína kúlurnar upp á tréð. Mamma þessar kúlur eru orðnar brúnar í endann, sagði ég. Æ já ég ætti kannske bara að henda þeim, kom hjá henni, þær voru keyptar árið sem hún Gyða í Miklaholti var að vinna á Vegamótum. Ójá, þessar kúlur eru nefnilega búnar að hanga á öllum jólatrjám sem hafa nokkurntíma staðið í stofunni á Stakkhamri, um það bil 40 ára gamlar. Auðvitað verður þeim ekki hent, þær eru dýrgripir sem tilheyra jólunum hjá okkur öllum og verða sennilega áfram hengdar á jólatré meðan nokkur leið er að festa í þær spotta.
Athugasemdir
Gleðilega hátíð vinkona og þið öll. Já, þetta eru forréttindi sem þú hefur að geta eytt hátíðinni á æskuslóðunum og það í sveitinni við allar gömlu og góðu hefðirnar og góð finnst mér frásögnin af jólakúlunum. Auðvitað verða þær til áfram. Hér hjá mér er til gamalt tré, það fyrsta sem ég man eftir og gamla serían sem keypt var fyrstu rafmagnsjólin í minni sveit. Öðru hvoru hefur þetta gamla dót verið sett upp svona til að rifja upp gömlu góðu tímana en verst hvað tréð er orðið lélegt en því verður ekki hent
Vona að þú hafir það sem best og njótir sveitardvalarinna.
Sveitakallinn (IP-tala skráð) 26.12.2007 kl. 12:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.