14.12.2007 | 20:32
Áfram Özur....
Í 24 stundum í dag tekur Özur Lárusson vinur minn til varna gegn skrifum Sigurðar Guðjónssonar formanns húseigendafélagsins 12. des. sl. Það er með ólíkindum hvað fólk sem vill dags daglega láta taka sig alvarlega getur látið eftir sér að ausu úr sér óvönduðum skrifum. Orðrétt vitnar Özur í Sigurð sem segir m.a. að fólk sem þyki skata góð "þykist vera að vestan þar sem vondur matur þyki góður og að það hafi að öllum líkindum stuðlað að fólksflótta og eyðingu byggðar þar vestra". Þarna tekur steininn hressilega úr og var þó af nógu að taka í skrifunum.
Þetta var snöfurlega gert hjá Özur að standa upp fyrir okkur dreifbýlistútturnar nær og fjær hvort sem við unnum hákarli, skötu eða erum bara utan af landi og látum ekki vaða yfir okkur með svona kjaftæði.
Athugasemdir
Já það var bara með ólíkindum hvað þetta var skrítin grein hjá Sigurði. Bara eins og hann hafi skyndilega misst vitið mitt í jólaösinni. Það er eitt það mesta tilhlökkunarefni vetrarins að fara upp í Skeljabrekku í skötuveisluna á Þorláksmessu. Ég hef lika orðið þess vör að skötuát er siður sem hefur breiðst út um landið rétt eins og laufabrauðsskurður. Þegar ég bjó í fjölbýli var alltaf skata, soðin við vægasta hita til að lyktin yrði sem minnst. Ég harðneita að þessi matreiðsla hafi farið fram einungist í þeim tilgangi að klekkja á eða hrekkja nágrannana, sem reyndar höfðust flestir svipað að. Gott hja Özur að taka okkar málstað. Reyndar var á sömu síðu í 24st grein eftir Þórarinn Þórarinnsson rituð í sama tilgangi. Gott hjá þeim og svei þér Sigurður Guðjónsson að vaða svona áfram með sleggjudóma um fólk sem þú þekkir ekki neitt.
Ásdís (IP-tala skráð) 14.12.2007 kl. 22:14
Ég fæ nú ekki skilið samhengið í þessu með skötuátið og fólksflóttann. Væntanlega á hann við að fólk hafi flúið að "vestan" vegna skötulyktarinnar hingað suður og þá með þennan ósið með sér og séu að svæla alla út hér. Skrítið að fólksflótti og eyðing byggðar sé ekki sjáanleg á þessu heilaga malbiks og svifrykssvæði þeirra er éta bara góðan og óvondan mat. Nei, líklega hefur þetta átt að vera fyndið hjá Hr. Sigurði ( eða ég vona það ). Ekki þykir mér verri skötulykt eða smá mykjuilmur af sveitavargnum en mengunin hér syðra.
Hafsteinn (IP-tala skráð) 15.12.2007 kl. 18:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.