9.12.2007 | 20:13
Skemmtileg folalda- og tryppasýning
Sunnudagur 9. desember. Við Selma brugðum okkur í Borgarfjörð, nánar tiltekið að Mið-Fossum, á folalda- og tryppasýningu Hrossaræktarsambands Vesturlands. Fjöldi fólks og tryppa var saman kominn að sýna sig og sjá aðra. Pabbi og Laufey komu með "Vakra-Skjóna" og "Markúsardóttir" sem núna heita víst Blær og Katla. (Það er nú leyfilegt að vera frumlegur.) Þarna voru mætt folöld og tryppi frá flestum þekktari hrossaræktendum á Vesturlandi. Líklega var Skáneyjarfjölskyldan stórtækust og með mjög frambærilegan hóp. Mörg folöld og tryppi voru einnig undan Aðli frá Nýja-Bæ. Afkvæmi Aðals voru sýnd í hléi og gladdi þar margt augað. Mér hefur annars oft verið hugsað til þess að á Vesturlandi hafa konur verið gríðarlega sterkar í hrossaræktinni um árabil. Sigurborg á Bárustöðum, Ólöf í Nýja-Bæ og Birna á Skáney og hennar fjölsklda. Bjarni bóndi hennar vakti reyndar mikla athygli á sýningunni í dag, ég held að fáir ef nokkur (að folöldum og tryppum meðtöldum) hafi átt jafn marga spretti í reiðhöllinni á Miðfossum. Áhorfendur völdu folaldið Gljá frá Oddsstöðum undan Markúsi frá Langholtsparti, glæsilegasta gripinn.
Hamar frá Stakkhamri skipaði sér meðal fimm efstu í flokki veturgamalla fola, en endaði í fjórða sæti, fimmta tryppið mætti ekki í úrslitin svo öllu sé til haga haldið. Eigendur eru ánægðir með þennan árangur, hann kom vel fyrir í einstaklingssýningunni og reyndar eina tryppið sem var sýnt í taum. Hann er geðgóður, vel settur og reistur og við erum spennt að fylgjast með honum vaxa og dafna. Litla systir hans átti líka ljómandi góða sýningu, bráðefnileg þó hún kæmist ekki í hóp fimm efstu, enda var þar hvert úrvals folaldið á eftir öðru.
Skemmtilegt framtak hjá Hrossaræktarsambandinu, gaman að sýna sig og sjá aðra og það sem þeir eru að gera. Takk fyrir skemmtilegan dag.
Athugasemdir
Gaman að sjá hvað "hvolpaaugun" hennar Selmu virkuðu vel. Spurning hvort hún nýtir þennan hæfileika í gósentíðinni. Selma, það eru að koma Jól:)
Ásdís (IP-tala skráð) 12.12.2007 kl. 17:28
Þegar hestar eru annarsvegar er magnað hvað áhrif "hvolpaaugu" geta haft á gamla brýnið, hehe.
Erna Bjarnadóttir, 13.12.2007 kl. 08:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.