26.11.2007 | 22:34
Góðir hálsar...
Takk fyrir innlitið þið sem kíkið hér við.
Í gær brunuðum við mæðgur í sveitina, þeas Stakkhamar, til að heimsækja afa og ömmu (pabba og mömmu) í tilefni afmælanna 20. og 30. nóvember. Gripum eina jólastjörnu í Blómaval til að lífga upp á skammdegið.
Ekið var sem leið lá norður og vestur á Subaru legacy bifreið Kristjönu og Darra (annars hefðum við aldrei farið vegna veðurútlits, takk kærlega fyrir lánið).. Við vorum fjórar á ferð, því auk okkar Ernu, Lindu og Selmu var fröken Nína handboltaskvísa, með í ferð. Við mættum á slaginu lambalæri með brúnni sósu og auðvitað ís og bláber í eftirmat. Frú Ásta slær aldrei af í eldhúsinu, takk fyrir matinn. Eftir mat var brunað í fjós og önnur útihús, þar voru fyrir nautgripir á ýmsum aldri allt frá pelakálfi upp í lífsreyndar kýr sem muna tímana tvenna. Einnig voru hestar komnir á hús. Þar mátti finna hana Kviku litlu eins og ég kalla hana til aðgreiningar frá ömmunni, blessuð sé minning hennar, hún er á málverki inni í stofu hjá mér og allar dásamlegu minningarnar um hana gleymast ekki. Einnig skvísurnar Hátíð og Blíða sem eru vonandi upprennandi ræktunar hryssur, ásamt fleiri góðum hestum. Nefni sérstaklega hann Gust hennar Laufeyjar, mikinn karakter sem heillaði skandinaviska gesti í sumar og fleiri ef ég man rétt.
Já á eftir var stokkið að heilsa upp á liðið úti á túni. Þar var hann Garðar fremstur í flokki. Mikið var gaman að sjá að hann er orðinn sáttur við nýja umhverfið og leyfir að honum sé klappað og kjassað á alla lund. Honum leið svo illa fyrst í vor þegar hann átti enga vini. Svo voru þarna þrjú folöld ásamt mæðrum sínum. Öll velættuð og falleg. En athygli mín beindist auðvitað öll að henni Þernu, hún er svo mikil drottning. Tekur alltaf á móti mér eins og við hefðum hist í gær. Er með folaldið sitt hjá sér og sýnir mér. Yndislegur karakter.
En svo tók nú steininn úr, jú til að launa matinn þá buðumst við kaupstaðavargarnir til aðaðstoða við að smala fénu (alls 15 stykki). Tja það héldum við nú að væri létt verk og löðurmannlegt. Pufff..... þvílíkir asnar. Þær hlupu jú af stað en í allt aðra átt en ábúendur og smalamenn höfðu hugsað sér. Selma mátti taka gott skokk á eftir þeim upp allan Bleiksteinsás. Síðan var þeim beint niður í Leirlækjarholt þar sem þær tíndu alla útúrkróka sem fyrirfundust. Eina glætan í því sem ég held að hafi verið glópalán frekar en greind var að þær hlupu fram á einn félaga sinn sem var þar afvelta. Barg það eflaust lífi þess lambs. Og jújú suður á Stekkjarhöfða fannst þeim sjálfsagt að skokka líka. Þá komu Garðar og félagar til skjalann og stöðvuðu þessa heimskulegu útrás. En jæja, á endanum komust þær inn í hús. Ábúendur eru vinsamlega beðnir að láta okkur vita hvenær á að hýsa á næsta ári, við komum í heimsókn daginn eftir.
Að lokum var drukkið kaffi og snúðar nammmmm.......og brunað í bæinn. Þá var komið skítaveður en allt slapp til á þessum fína Subaru.
Góðar stundir.
Athugasemdir
Flokkast þetta ekki bara undir íþróttaæfingu
?
Kristjana Bjarnadóttir, 26.11.2007 kl. 22:43
Hæ, hæ, velkomin á bloggheima Erna.
Kíki öðru hvoru á blokkfærslur vina og vandamanna og ef þeim fjölgar svona ört þá er bara spurning hvort maður sleppir ekki bara jólabókinni í ár
. En gaman að lesa bloggið og endilega áfram með bókagagnrýnina.
Kv.
Villa
vilborg (IP-tala skráð) 29.11.2007 kl. 18:56
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.