Þingsályktun er ekki eilífðarvél!

Í umræðunni um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er oft vísað til þess að Alþingi hafi árið 2009 samþykkt þingsályktun um að sækja um aðild að ESB. Þetta er vitaskuld rétt. En hvernig ber að túlka slíka samþykkt rúmum einum og hálfum áratug síðar? Skiptir máli að önnur ríkisstjórn situr nú? Og að margar þingkosningar hafa verið haldnar á þeim tíma sem liðinn er.

Þetta er lykilatriði sem oft gleymist.

Þingsályktun er ekki lög samþykkt í þremur umræðum og sent forseta til undirritunar sem lög frá Alþingi heldur er þingsályktun viljayfirlýsing Alþingis á ákveðnum tímapunkti samþykkt við tvær umræður. Hún skuldbindur hvorki framtíðarþing né ríkisstjórnir til að fara nákvæmlega sömu leið m.ö.o. er ekki lagalega skuldbindandi.

Stjórnskipulega fer framkvæmdarvaldið með utanríkismál en samkvæmt 24. gr. þingskaparlaga skal ríkisstjórnin ávallt bera undir nefndina meiriháttar utanríkismál, jafnt á þingtíma sem í þinghléum, nema brýn nauðsyn banni. Nánari samskipti við ESB að undirlagi ríkisstjórnar án aðkomu utanríkismálanefndar kunna að fela í sér brot gegn þingskaparlögum.

Þegar ríkisstjórn Íslands ákvað árið 2015 að draga aðildarumsókn að ESB til baka, var það innan heimilda hennar sem framkvæmdarvalds. Þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, tilkynnti ákvörðunina í bréfi sem sent var til ESB og sem sambandið sjálft tók þátt í að semja eins og margsinnis hefur verið staðfest. Sú ákvörðun var vissulega gagnrýnd meðal annars af þeim sem vildu að Alþingi tæki formlega ákvörðun um breytingu á fyrri ályktun. En þess er einfaldlega ekki krafist samkvæmt stjórnarskrá eða stjórnsýslureglum.

Það er eðlilegt og rétt að spyrja gagnrýninna spurninga um hvernig ákvarðanir eru teknar. En það er ekki gagnlegt að tefla því fram að þingsályktun frá 2009 eða á 137. löggjafarþingi, (þingið sem nú situr er það 156. í röðinni) bindi hendur komandi ríkisstjórna um alla framtíð. Lýðræðið gengur út á breytingar, nýjar kosningar og breyttar áherslur og nýtt pólitískt umboð.

Þeir sem vilja hefja aðildarviðræður við ESB nú ættu því frekar að leggja fram nýja þingsályktun til að endurnýja hið pólitíska umboð sem samningaviðræður þurfa að byggja á. Þá er hægt að ræða málið út á skýrum forsendum í stað þess að klifa á sextán ára gamalli þingsályktun sem samþykkt var við gjörólíkar aðstæður bæði hér heima fyrir og erlendis.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og átján?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband