9.7.2025 | 14:10
Æfing í þöggun og svo kemur stóra málið
Í stjórnmálum er ekki óalgengt að prófa aðferð á einu máli til að sjá hvernig hún bítur og síðan nota hana síðar í stærra samhengi. Orðið á götunni segir að slíkt gæti verið að gerast núna.
Sagt er að ríkisstjórnin hyggist beita 71. grein þingskapalaga til að loka umræðu um veiðigjaldafrumvarpið. Það eitt og sér væri tilefni til gagnrýni. En ef þetta reynist rétt, gæti það verið liður í stærri leik: að skapa fordæmi fyrir beitingu sömu reglu þegar þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við Evrópusambandið kemur á dagskrá.
Samkvæmt 71. grein getur meirihluti Alþingis samþykkt að umræðu um þingmál skuli ljúka á tilteknum tíma. Þetta á að vera neyðarúrræði, en þegar það er notað á pólitískan ágreining án þess að þolinmæði fái að njóta sín, verður það að verkfæri til þöggunar.
Ef greinin verður notuð nú á tiltölulega afmarkað mál gæti það reynst „tilraunakeyrsla“. Því næst má segja:
„Við höfum gert þetta áður. Þetta er ekkert frábrugðið fyrra fordæmi.“
Og svo verður hægt að loka umræðu um stærsta pólitíska stefnumál landsins í áratugi með tilvísun í tæknilega reglu sem meirihlutinn einn ræður yfir.
En þá verðum við að spyrja: Hvers konar lýðræði er það?
Lýðræði snýst ekki aðeins um að telja atkvæði og mynda meirihluta. Það snýst um að hlusta, ræða og rökstyðja. Það snýst um að virða þá sem eru ósammála og skapa rými fyrir gagnrýni og aðhald. Í lýðræðisþjóðfélagi er hlutverk meirihlutans ekki aðeins að ráða – heldur að sýna að hann kunni að fara með vald af hófsemi og ábyrgð.
Meirihluti hefur vald til að móta stefnu en ekki til að forðast umræðu.
Þeir sem líta svo á að 50,4 prósent í einni kosningu gefi umboð til að stjórna aðgangi að umræðu og stýra því hvernig þjóðin ræðir framtíð sína, misskilja lýðræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)