10.7.2025 | 10:49
Ætlum við að halda áfram þó enginn spyrji hvert?
Ríkisstjórnin boðar nú þjóðaratkvæðagreiðslu. En um hvað? Ekki um aðild að Evrópusambandinu. Ekki um innihald eða markmið. Ekki einu sinni um það hvort Ísland eigi að sækja um inngöngu í sambandið. Nei, þjóðinni á að bjóða að „halda áfram“ viðræðum sem enginn veit nákvæmlega hvar duttu af vagninum.
Viðræðum sem voru settar í bið árið 2013.
Viðræðum sem stjórnvöld sjálf lýstu lokið árið 2015.
Viðræðum sem ESB virðist hvorki sakna né vilja rifja upp.
En það skiptir víst ekki máli. Svo lengi sem orðalagið hljómar sakleysislega "halda áfram" þá er hægt að ramma þetta inn sem eitthvað sem þjóðin á að segja já eða nei við. Eins og þetta sé bara næsti fundur í fundaröð sem rann út á tíma.
En hver á þá að mæta? Með hvaða umboð? Og hvað á að vera á dagskrá?
Það virðist enginn vita eða að minnsta kosti vilja vita af þeim sem boða þessa atkvæðagreiðslu, væntanlega af því að það hentar einmitt best.
Þetta er ekki stefna. Þetta er ekki pólitísk ábyrgð. Nei en hér er verið að reyna að afla formlegs umboðs fyrir ferli sem enginn hefur skilgreint, með skilmálum sem enginn hefur séð og undir formerkjum sem enginn vill ræða of mikið.
Þau sem hafa kynnt sér ferlið vita að þetta eru ekki samningaviðræður í hefðbundnum skilningi. Það er ekki Ísland sem mótar dagskrána eða hefur yfirleitt áhrif á hana heldur er það Evrópusambandið sem verkstýrir og leggur mat á hvernig Ísland hefur aðlagast regluverki þess.
Við megum koma með okkar fólk og þýða skjölin sem lögð eru fram á fundum en við setjum enga skilmála um hvað út úr þessu á að koma.
Það er sláandi að þetta eigi að setja fram sem einfaldleika spurningu:
Viltu halda áfram?
En spurningin sem ekki má spyrja og sem þjóðin ætti í raun að fjalla um er þessi:
Hvert á að fara?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)