2.5.2025 | 09:04
Vandinn byrjar eftir vönduðu vinnubrögðin
Þegar ríkisstjórnin var mynduð í vetur var talað um vönduð vinnubrögð
Fagmennsku
Samráð
Minnisblöð embættismanna
Skrifstofufundi
Örugg skref
Það hljómaði vel
Það leit vel út
En vandinn byrjar eftir vönduðu vinnubrögðin
Þegar textinn á pappírnum breytist í ákvarðanir
Þegar skrifborðið losar sig við varnaðarorðin
Við hækkun veiðigjalda lágu fyrir minnisblöð sem bentu á að útfærslan væri byggð á vafasömum forsendum
Við tengingu bótakerfisins við launavísitölu lágu fyrir varnaðarorð um sjálfvirka útgjaldaaukningu sem gæti grafið undan sjálfbærni ríkisfjármála
Í báðum tilvikum var ráðist í breytingarnar án greiningar
Var gert heildarmat?
Engin sýn á langtímaáhrif
Engin skýring á hvað svo
Nýjasta dæmið er skipun stjórnar Húsnæðis og mannvirkjastofnunar
Þar var lögum um jafna skipan kynjum hlýtt þar til það varð óþægilegt
Þá var þeim bara ekki hlýtt
Ekki mistök
Heldur ákvörðun
Það er eitthvað sérstakt þegar ferli sem byrja með samráðsgáttum minnisblöðum og yfirlýsingum um vandaðan undirbúning enda með því að rýra sjálfbærni grafa undan trausti og brjóta lög
Eitthvað sérstakt við að vanda vinnubrögðin en virða þau svo einskis
Það er eitthvað sérstakt þegar mynd og hljóð fara ekki saman
Þegar sagan sem er sögð á blaðinu er önnur en sagan sem er gerð í verki
Það er eins og verkin séu skrifuð á öðru tungumáli
Tungumáli þar sem varnaðarorð eru skilin sem tillögur
Lög skilin sem leiðbeiningar
Ábyrgð skilin sem orð
Kannski er ekkert verra en það
Þegar við hættum að búast við að mynd og hljóð fari saman
Þegar við hlæjum bara að ósamræminu
Eða vöndum okkur við að horfa í hina áttina
Sannleikurinn tapar þegar þögnin sigrar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)