28.4.2025 | 11:39
Sjálfumgleði í stað ábyrgðar
Það var líf í tuskunum á samfélagsmiðlum stjórnmálafólksins yfir páskana eins og Spursmál Morgunblaðsins fóru yfir í léttum tón.
Skíðabrekkur, utanlandsferðir, fjallaferðir, páskaegg af ýmsum gerðum, sól í Sandeyjahöfn og hlýlegt spjall um sumardaginn fyrsta var meðal þess sem bar fyrir augu.
Þjóðinni var sýnt hvað þau höfðu það gott og átti að samgleðjast.
Það er ekkert óeðlilegt við að fólk njóti lífsins
Það er ekki heldur óeðlilegt að fjölmargir landsmenn hafi getað leyft sér páskaegg fjallaferðir og sumarsjálfu.
En spurningin er þessi:
Hvers vegna þarf fólk sem hefur nóg að bíta og brenna og stendur í því að þyrla upp óvissu með óútskýrðum stefnumótunarhugmyndum að blása sjálfu sér lof í lófa?
Hvers vegna þarf fólk sem stendur ekki við kosningaloforð að sýna sig í stöðugri sjálfsupphafningu.
Það er ekki lífið sjálft sem truflar.
Það er viðhorfið.
Að ábyrgð sé afgreidd með filter og broskörlum.
Að loforð gleymist en ljósmyndir lifi.
Íslensk stjórnmál virðast sífellt meira snúast um að vera til sýnis en að bera ábyrgð.
Við sjáum sumarsjálfurnar.
Við sjáum steikina.
Við sjáum flugleggina og gleðina.
Það sem við sjáum minna af eru svör við spurningunum.
Hvað varð um loforðin?
Hver stendur undir ábyrgðinni þegar ljósmyndin dofnar?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)