Færsluflokkur: Bækur
25.5.2008 | 11:37
Kona fer til læknis...
Í Noregsferðina lauk ég við bókina "Kona fer til læknis" eftir hollenska rithöfundin Ray Kluun. Þetta er frábærlega skrifuð bók. Persónur bókarinnar gætu búið í næsta húsi eða næstu götu. Svikalaus lýsing á mannlegum brestum og hvernig kynhvötin drífur okkur áfram, mannlegt eðli í gleði og sorg. Bók fyrir fullorðið fólk um tilfinningaskalann.
Á bókarkápu segir: "Kona fer til læknis miskunnarlaus lýsing á sambandi karls og konu. Sagan er full af gáska og innileika en laus við falska tilfinningasemi. Þetta er ágengur en um leið blíður óður til ástarinnar."
Ég mæli eindregið með henni.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2008 | 21:04
Þjóðargjöfin...
Það er skemmtilegt framtak hjá bókaútgefendum að færa okkur 30% afslátt á bókakaupum fyrir 3000 kr á þessum árstíma. Upplagt að birgja sig upp af góðu lesefni fyrir sumarfríið. Ég fór í dag með gamla inneignarnótu í Mál og menningu og verslaði eftirfarandi neon bækur.
Kona fer til læknis eftir Ray Kluun - hún fer fyrst á náttborðið
Eftir skjálftann eftir Haruki Murakami - Japananskur eðalrithöfundur - mæli eindregið með honum
Leyndardómur býflugnanna eftir Sue Monk Kidd - ja, tek hana í Póllandsferðinni í byrjun júní.
Nafnabókin eftir Amélie Nothomb, Linda mælir mikið með þessari, nú er komið að mér að lesa hana.
Barndómur eftir J.M. Coetzee - gerist í Suður-Afríku verður tekin með ferðalag í sumar.
Ef einhver sem les þetta hefur lesið Ristavélina þætti mér gaman að fá komment á hvort hún sé áhugaverð lesning.
Svo bendi ég ykkur á tónlistarmanninn Stevie Ray Vaughan, alger snillingur á gítar. Því miður lést hann af slysförum langt um aldur fram.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.4.2008 | 22:16
Snákar og eyrnalokkar...
Síðustu daga hef ég náð að lesa tvær bækur. Sú fyrri var bókin "Ein til frásagnar" eftir Immaculée Ilibagiza sem lifði af blóðbaðið í Rúanda 1994. Á bókarkápu segir: Þess ótrúlega saga um reynslu ungrar konu af helvíti helfararinnar mun ekki láta nokkurn mann ósnortinn." Sagan um hvernig hún lifði af ásamt sjö öðrum konum er lygi líkust. Prestuinn sem faldi þær hélt því leyndu fyrir fjölskyldu sinni sem bjó í sama húsi og gaf þeim afganga frá heimilinu til að borða. Dæmi um annan Tútsa sem lifði af bar þannig til að hann var falinn af vini sínum sem var sjálfur Hútúi og fór á daginn út til að myrða aðra Tútsa. Þetta er ótrúlegt vitni um hvernig hægt er að ala á hatri og grimmd fólk í garð nágranna sinna, leikfélaga og vina svo fólk fæst til að ganga að þeim með sveðjur til að myrða þá. Þessi saga er ævarandi áminning til mannkynsins um hve lítið þarf til að fólk snúist gegn samlöndum sínum og vinum af hatri og ótrúlegri grimmd.
Hin bókin sem ég las heitir Snákar og eyrnalokkar og fékk japönsku bókmenntaverðlaunin 2004. Athyglisverð bók um þann doða og tilfinningaleysi sem grípur um sig hjá ungu fólki sem ekki finnur tilgang með lífi sínu. Bókin er gefin út af bókaútgáfunni Bjarti í flokki neon bókanna. Ég hef lesið talsvert margar bækur í þessum flokki mér til mikillar ánægju og færi bókaútgáfunni fátæklegar þakkir mínar fyrir að færa okkur sýnishorn af nýjum heimsbókmenntum í góðum þýðingum.
Bækur | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)