Færsluflokkur: Bloggar
11.7.2025 | 15:01
Er unnt að tala í nafni þjóðarinnar?
Forsvarsmenn og konur ríkisstjórnarinnar hafa undanfarið farið mikinn í því að tala "í nafni þjóðarinnar".
Þegar gagnrýni kemur fram á þjóðaratkvæðagreiðslu spurninguna um áframhald viðræðna við ESB, er henni gjarnan mætt með orðræðu um að "þjóðin eigi rétt á að tjá sig". Þegar þingmenn krefjast umræðu um veiðigjöld er því svarað með að beita 71. grein í nafni "vilja þjóðarinnar".
Þetta minnir óþægilega mikið á popúlíska stjórnmálahefð en þar er samfélaginu skipt í "hreint fólk" og "spillta elítu". Annað einkenni er að flókin málefni eru einfölduð í svör sem hljóma vel en leiða ekki til neins.
"Viltu halda áfram?" er ekki lýðræðisleg stefnumótun, heldur leið til að framkalla samþykki án umræðu.
Og orðræðan "þjóðin vill" er ekki rök, heldur tækni til að loka á gagnrýni.
En hvað ef þjóðin segir nei?
Hefur hún þá sagt nei við viðræðum?
Við aðild?
Við Evrópusambandið sjálft?
Ef umræðan má ekki fylgja spurningunni, þá hefur svarið lítið vægi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2025 | 10:49
Ætlum við að halda áfram þó enginn spyrji hvert?
Ríkisstjórnin boðar nú þjóðaratkvæðagreiðslu. En um hvað? Ekki um aðild að Evrópusambandinu. Ekki um innihald eða markmið. Ekki einu sinni um það hvort Ísland eigi að sækja um inngöngu í sambandið. Nei, þjóðinni á að bjóða að „halda áfram“ viðræðum sem enginn veit nákvæmlega hvar duttu af vagninum.
Viðræðum sem voru settar í bið árið 2013.
Viðræðum sem stjórnvöld sjálf lýstu lokið árið 2015.
Viðræðum sem ESB virðist hvorki sakna né vilja rifja upp.
En það skiptir víst ekki máli. Svo lengi sem orðalagið hljómar sakleysislega "halda áfram" þá er hægt að ramma þetta inn sem eitthvað sem þjóðin á að segja já eða nei við. Eins og þetta sé bara næsti fundur í fundaröð sem rann út á tíma.
En hver á þá að mæta? Með hvaða umboð? Og hvað á að vera á dagskrá?
Það virðist enginn vita eða að minnsta kosti vilja vita af þeim sem boða þessa atkvæðagreiðslu, væntanlega af því að það hentar einmitt best.
Þetta er ekki stefna. Þetta er ekki pólitísk ábyrgð. Nei en hér er verið að reyna að afla formlegs umboðs fyrir ferli sem enginn hefur skilgreint, með skilmálum sem enginn hefur séð og undir formerkjum sem enginn vill ræða of mikið.
Þau sem hafa kynnt sér ferlið vita að þetta eru ekki samningaviðræður í hefðbundnum skilningi. Það er ekki Ísland sem mótar dagskrána eða hefur yfirleitt áhrif á hana heldur er það Evrópusambandið sem verkstýrir og leggur mat á hvernig Ísland hefur aðlagast regluverki þess.
Við megum koma með okkar fólk og þýða skjölin sem lögð eru fram á fundum en við setjum enga skilmála um hvað út úr þessu á að koma.
Það er sláandi að þetta eigi að setja fram sem einfaldleika spurningu:
Viltu halda áfram?
En spurningin sem ekki má spyrja og sem þjóðin ætti í raun að fjalla um er þessi:
Hvert á að fara?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2025 | 14:10
Æfing í þöggun og svo kemur stóra málið
Í stjórnmálum er ekki óalgengt að prófa aðferð á einu máli til að sjá hvernig hún bítur og síðan nota hana síðar í stærra samhengi. Orðið á götunni segir að slíkt gæti verið að gerast núna.
Sagt er að ríkisstjórnin hyggist beita 71. grein þingskapalaga til að loka umræðu um veiðigjaldafrumvarpið. Það eitt og sér væri tilefni til gagnrýni. En ef þetta reynist rétt, gæti það verið liður í stærri leik: að skapa fordæmi fyrir beitingu sömu reglu þegar þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við Evrópusambandið kemur á dagskrá.
Samkvæmt 71. grein getur meirihluti Alþingis samþykkt að umræðu um þingmál skuli ljúka á tilteknum tíma. Þetta á að vera neyðarúrræði, en þegar það er notað á pólitískan ágreining án þess að þolinmæði fái að njóta sín, verður það að verkfæri til þöggunar.
Ef greinin verður notuð nú á tiltölulega afmarkað mál gæti það reynst „tilraunakeyrsla“. Því næst má segja:
„Við höfum gert þetta áður. Þetta er ekkert frábrugðið fyrra fordæmi.“
Og svo verður hægt að loka umræðu um stærsta pólitíska stefnumál landsins í áratugi með tilvísun í tæknilega reglu sem meirihlutinn einn ræður yfir.
En þá verðum við að spyrja: Hvers konar lýðræði er það?
Lýðræði snýst ekki aðeins um að telja atkvæði og mynda meirihluta. Það snýst um að hlusta, ræða og rökstyðja. Það snýst um að virða þá sem eru ósammála og skapa rými fyrir gagnrýni og aðhald. Í lýðræðisþjóðfélagi er hlutverk meirihlutans ekki aðeins að ráða – heldur að sýna að hann kunni að fara með vald af hófsemi og ábyrgð.
Meirihluti hefur vald til að móta stefnu en ekki til að forðast umræðu.
Þeir sem líta svo á að 50,4 prósent í einni kosningu gefi umboð til að stjórna aðgangi að umræðu og stýra því hvernig þjóðin ræðir framtíð sína, misskilja lýðræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.5.2025 | 10:02
Alþingi er ekki bankaútibú, Benedikt
Í morgun heyrði ég Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi ráðherra, segja í beinni útsendingu að Alþingi væri "ekki mjög skilvirkur vinnustaður". En miðað við hvað?
Alþingi er enginn venjulegur vinnustaður með hefðbundnu stigveldi, deildarstjórum og afkastakröfum. Það er lýðræðisleg löggjafarsamkoma, þar sem kjörnir fulltrúar með ólík viðhorf takast á um stefnu þjóðarinnar og setningu laga. Hlutverk þingsins er ekki að hámarka framleiðni eða ljúka verkefnalistum á stystum tíma, heldur að skapa umræður, skoða málin í samhengi og rýna í afleiðingar.
Þegar fyrrverandi ráðherra talar Alþingi svona niður vekur það spurningar: Er hann að mæla skilvirkni í tímaeiningum, eða að afgreiða lýðræðisferlið sem bagalegt handritsvilla í stjórnkerfinu?
Vissulega má ræða umbætur á þinghaldi. En þá umræðu verður að grundvalla á virðingu fyrir eðli þingsins, ekki á staðlaðri afkastahugsun sem hæfir kannski betur í verksmiðju en í lýðræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2025 | 11:39
Gervigreindin skilur pólitíska þýðingu undirritaðrar yfirlýsingar betur en ráðherrann
Þann 21. maí 2025 undirrituðu utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein, ásamt æðsta talsmanni utanríkismála Evrópusambandsins, pólitíska yfirlýsingu um aukið samstarf á sviði utanríkis, öryggis og varnarmála innan ramma EES. Yfirlýsingin ber yfirskriftina "Strengthening EEA Foreign and Security Policy Cooperation" og var undirrituð í Brussel, í skugga stríðsins í Úkraínu og harðnandi spennu í alþjóðakerfinu.
En hver var umfjöllunin hér heima? Var það á forsíðum blaðanna? Var hún rædd á Alþingi? Var hún útskýrð fyrir almenningi? Nei. Það er þó huggun harmi gegn að vita að ef íslenskur ráðherra skilur ekki pólitísk áhrif eigin gjörða, þá er hægt að spyrja gervigreind. Hún les textann, túlkar hann, og sér strax hvað er að gerast.
Yfirlýsing sem breytir stöðu Íslands - án umræðu
Skjal þetta staðfestir pólitískan vilja til að samræma utanríkisstefnu Íslands við stefnu ESB. Þar með felst í því þátttaka í yfirlýsingum, refsiaðgerðum og jafnvel sameiginlegum utanríkisráðstefnum ESB. Ísland lýsir sig reiðubúið til að mæta á fundi utanríkismálaráðs sambandsins og taka þátt í sameiginlegum erindrekstri (démarches) gagnvart þriðju ríkjum og alþjóðastofnunum.
Á sama tíma opnar yfirlýsingin möguleika á aukinni samvinnu í öryggis- og varnarmálum, með beinum tengingum við verkefni sem ESB rekur í þeim efnum. Þar með er Ísland orðið aðilaríki í pólitískum vilja til að tengja sig evrópsku öryggis- og varnarsamstarfi, utan allra formlegra öryggissamninga.
Hvers vegna þetta skiptir máli?
Vegna þess að þetta gerist án nokkurrar umræðu á Alþingi, án opinberrar skýrslugjafar, og án þess að íslensk stjórnvöld geri grein fyrir breytingum sem þetta kann að fela í sér fyrir sjálfstæða stefnumótun Íslands í utanríkis- og öryggismálum.
Ef litið er til efnis yfirlýsingarinnar blasir við að hún er langt frá því að vera "tæknilegt samráð" milli vina. Hún er pólitísk viljayfirlýsing sem hefur bæði ytri áhrif (þátttaka í aðgerðum ESB) og innri áhrif (möguleg aðlögun stefnu Íslands að regluverki sem við höfum ekki aðgang að að móta).
Hver ber ábyrgð á að útskýra þetta fyrir þjóðinni?
Það er hlutverk ráðherra að útskýra slíkar yfirlýsingar og leggja þær fram til umræðu. En það gerist ekki.
Í stað þess sitjum við eftir með ástand þar sem það þarf að spyrja gervigreind til að greina hvað er í raun verið að undirrita, og þá loks kemur í ljós hversu djúpar áhrifin kunna að vera. Það þarf ekki að vera slæmt að Ísland styrki tengsl sín við ESB í utanríkismálum. En það er lýðræðislegt grundvallaratriði að það gerist með vitund og vilja þjóðarinnar, ekki með skrifborðsyfirlýsingu sem gleymist um leið og hún er skrifuð undir.
Niðurstaða: Gervigreindin skilur en skilur ráðherrann?
Við búum í lýðræðisríki. Þar eiga stórpólitískar yfirlýsingar að fara fyrir Alþingi. Þar á að ræða hvort við ætlum að samræma okkur refsiaðgerðum ESB, hvort við ætlum að hleypa okkur inn í samstarf á sviði öryggis- og varnarmála, og hvort við ætlum að samþykkja að tala fyrir hönd ESB á alþjóðavettvangi.
Ef það gleymdist í Brussel að spyrja íslensku þjóðina, þá er kominn tími til að minna á að lýðræðið er ekki formsatriði. Það er grundvöllur trausts og ábyrgðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.5.2025 | 08:14
Orkan, óvissan og stjórnleysið
Þeir sögðu að orkupakkarnir myndu færa okkur ódýrara, öruggara rafmagn.
Það hljómaði vel.
En við sjáum annað.
Við horfum á Spán þar sem raforkukerfið hrundi úr 27 gígavöttum niður í 12 á einni klukkustund.
Vindorkan hvarf og kerfið féll.
Það skorti aflforðann sem hélt því stöðugu.
Einn þáttur málsins er skortur á svokallaðri kerfisinergíu, hreyfiorku sem myndast við snúning rafala í stórum orkuverum. Þegar skyndilegt raforkutap á sér stað veitir þessi hreyfiorka tímabundið afl sem hjálpar til við að viðhalda stöðugleika tíðninnar í raforkukerfinu eins og höggdeyfir.
Vind- og sólarorka, sem tengjast við raforkukerfið í gegnum invertera (spennubreytibúnað), skapa ekki snúningsmassa og gátu því ekki bætt upp orkufallið.
Í Noregi er það vatnsaflið sem bjargar.
Ísland hefur vatnsafl en líka orkupakka þrjú.
Og nú er orkupakki fjögur á leiðinni.
Smátt og smátt færum við ákvörðunarvaldið frá Alþingi til Brussel.
Rökin voru óljós.
Þetta verður ódýrara, sögðu þeir.
Þetta verður öruggara, sögðu þeir.
Við sjáum annað.
Við sjáum sveiflur, óstöðugleika, reglur sem takmarka forræði en enginn ber ábyrgð.
Við sjáum stjórnmálamenn tala um orkuskipti
en ekki segja hvaðan orkan á að koma.
Við sjáum stefnu án áætlunar.
Við sjáum loforð án burðarvirkis.
Það er ekki frelsi að missa vald yfir eigin markaði.
Það er ekki öryggi að treysta á kerfi sem kiknar þegar mest á reynir.
Sannleikurinn tapar þegar þögnin sigrar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2025 | 08:56
Það á ekki að líðast en svo líðst það árum saman
Forsætisráðherra segir að njósnir eigi ekki að líðast í okkar samfélagi
Það hljómar vel
En þegar ríkasti maður landsins lætur njósna um fólk
Þegar lögreglumenn taka verkið að sér
Þegar eftirlit og stjórnsýsla bregðast
Þegar grafið er undan trausti til stofnana
Þá dugar ekki að segja
Þetta á ekki að líðast
Því þetta hefur liðist
Ekki bara einu sinni
Ekki bara í skugganum
Heldur árum saman
Það sem átti ekki að líðast var látið líðast
Af hverjum?
Af stjórnendum lögreglunnar
Af ráðherrum
sem öll höfðu vald til að spyrja
en spurðu ekki
Nýr forsætisráðherra hefur tækifæri til að slíta sig úr mynstrinu
Að láta sér ekki nægja að segja að þetta eigi ekki að líðast
Heldur tryggja að endurskoðun vinnubragða leiði til að það líðist ei framar
En enn sem komið er
hefur hún valið yfirlýsingu fram yfir aðgerðir
orð fram yfir ábyrgð
Það er eitthvað sérstakt þegar tækifæri til breytinga blasir við
en velur að varpa ábyrgðinni á þá sem brutu af sér
En ekki þau sem við treystum á að koma í veg fyrir að slíkt gerist
Og það er eitthvað sérstakt við samfélag sem segir
Þetta á ekki að líðast
en lætur það líðast
ár eftir ár
Samfélag sem samþykkir slíkt stendur ekki undir eigin vonum
Sannleikurinn tapar þegar þögnin sigrar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2025 | 09:19
Erfitt að horfa á en auðveldara að koma í veg fyrir?
Það eru stundum þær fréttir sem maður les tvisvar af því þær snúast ekki bara um einstök atvik heldur afhjúpa heilt viðhorf. Viðbrögð Gríms Grímssonar alþingismanns og fyrrverandi yfirmanns miðlægrar rannsóknardeildar lögreglunnar við umfjöllun Kveiks um njósnir lögreglumanns í þágu auðmanns voru einmitt þannig.
Grímur lýsir þáttunum sem erfitt að horfa á og segir málið mikil vonbrigði. Hann virðist tala sem áhorfandi jafnvel fórnarlamb sem situr heima við sjónvarpið og horfir dapurlega á brostnar vonir sínar um siðferði starfsstéttarinnar.
En bíðum við. Hver bar ábyrgð á því að svona lagað gæti gerst Hver sat í valdastólum þegar þessi menning skapaðist Hver hafði aðgang að upplýsingum um áhættu veikleika í eftirliti og kerfisgöt sem gætu gert lögreglumanni kleift að selja aðgang að gagnagrunni lögreglunnar
Rétt er: Þeirra á meðal var Grímur Grímsson.
Ábyrgð án ábyrgðar
Það sem stingur er að sjá hvernig yfirmaður lögreglu sem starfaði árum saman á innsta hring bregst við kerfisbilun með því að vorkenna sjálfum sér. Það var erfitt að horfa á segir hann. En hversu erfitt var það fyrir fólkið sem var njósnað um Hversu erfitt er fyrir almenning að treysta stofnun sem gat ekki verndað viðkvæmasta gagnasafn þjóðarinnar
Þegar Grímur segir maður skyldi ætla að það þyrfti tiltekið siðferði til að starfa í lögreglunni þá gleymir hann að það er ekki siðferði einstaklinganna sem á að halda kerfinu uppi heldur eftirlit innri varnir og ábyrg stjórnun. Ef kerfið byggir á trausti til góðra manna en ekki á gagnsæi og eftirliti þá er kerfið sjálft gallað.
Ábyrgðin var hans. Ekki þeirra sem horfðu á þáttinn. Ekki einu brotaviljuga lögreglumannsins. Ekki áhorfenda. Ekki okkar sem nú sitjum eftir og spyrjum hvernig svona gat gerst. Ábyrgðin var þeirra sem stjórnuðu þeirra sem áttu að sjá fyrir þessa áhættu og bregðast við fyrir fram.
Ekki vorkunnarvert heldur óboðlegt
Það er því óboðlegt að sá sem sat við stjórnvölinn geri sig að hlutlausum áhorfanda. Það er óboðlegt að hann biðji okkur almenning um vorkunn fyrir hversu erfitt var að horfa á niðurstöður þess eftirlitsleysis sem hann var sjálfur hluti af.
Við eigum ekki að vorkenna honum. Við eigum að krefjast svara. Við eigum að krefjast úrbóta. Og við eigum að rifja upp að það eru ekki bara slæmir einstaklingar sem skapa svona mál heldur menningin kerfið og þau sem stjórna því.
Kannski er rétt að spyrja Ef hann sá þetta ekki fyrir af hverju var hann þá yfirmaður Og ef hann sá þetta fyrir af hverju gerði hann ekkert
Lokahugleiðing
Það þarf ekki aðeins siðferði til að starfa í lögreglunni. Það þarf líka siðferðilega stjórnun raunverulegt eftirlit og kerfi sem byggir ekki bara á trausti heldur ábyrgð.
Kannski var erfitt að horfa á Kveik. En það er miklu erfiðara að horfa á kerfi sem bregst trausti okkar allra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2025 | 09:04
Vandinn byrjar eftir vönduðu vinnubrögðin
Þegar ríkisstjórnin var mynduð í vetur var talað um vönduð vinnubrögð
Fagmennsku
Samráð
Minnisblöð embættismanna
Skrifstofufundi
Örugg skref
Það hljómaði vel
Það leit vel út
En vandinn byrjar eftir vönduðu vinnubrögðin
Þegar textinn á pappírnum breytist í ákvarðanir
Þegar skrifborðið losar sig við varnaðarorðin
Við hækkun veiðigjalda lágu fyrir minnisblöð sem bentu á að útfærslan væri byggð á vafasömum forsendum
Við tengingu bótakerfisins við launavísitölu lágu fyrir varnaðarorð um sjálfvirka útgjaldaaukningu sem gæti grafið undan sjálfbærni ríkisfjármála
Í báðum tilvikum var ráðist í breytingarnar án greiningar
Var gert heildarmat?
Engin sýn á langtímaáhrif
Engin skýring á hvað svo
Nýjasta dæmið er skipun stjórnar Húsnæðis og mannvirkjastofnunar
Þar var lögum um jafna skipan kynjum hlýtt þar til það varð óþægilegt
Þá var þeim bara ekki hlýtt
Ekki mistök
Heldur ákvörðun
Það er eitthvað sérstakt þegar ferli sem byrja með samráðsgáttum minnisblöðum og yfirlýsingum um vandaðan undirbúning enda með því að rýra sjálfbærni grafa undan trausti og brjóta lög
Eitthvað sérstakt við að vanda vinnubrögðin en virða þau svo einskis
Það er eitthvað sérstakt þegar mynd og hljóð fara ekki saman
Þegar sagan sem er sögð á blaðinu er önnur en sagan sem er gerð í verki
Það er eins og verkin séu skrifuð á öðru tungumáli
Tungumáli þar sem varnaðarorð eru skilin sem tillögur
Lög skilin sem leiðbeiningar
Ábyrgð skilin sem orð
Kannski er ekkert verra en það
Þegar við hættum að búast við að mynd og hljóð fari saman
Þegar við hlæjum bara að ósamræminu
Eða vöndum okkur við að horfa í hina áttina
Sannleikurinn tapar þegar þögnin sigrar
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2025 | 08:32
Rafmagnsleysi, orkutilskipanir og sveigjanleiki
Í lok apríl varð víðtækt rafmagnsleysi á Spáni, í Portúgal og hluta Frakklands. Ljóslausar lestarstöðvar, kælibúnaður sem hætti að virka og strandaglópar á flugvöllum minntu á hversu háð við erum stöðugu rafmagni. Enn er óljóst hvað olli þessu, en umræðan vakti spurningar um byggingu og veikleika raforkukerfis Evrópu.
Samtenging dugar ekki ein og sér
Í Danmörku var því haldið fram að slíkt gæti varla gerst þar. Norðurlöndin hafa sterkt kerfi og njóta góðs af fjölbreyttum orkugjöfum og góðum tengingum milli landa. En samtenging ein og sér tryggir ekki öryggi. Það sem skiptir máli er svokallaður dýnamískur sveigjanleiki: geta kerfisins til að jafna út sveiflur og bregðast hratt við truflunum með fjölbreyttum lausnum.
Veikleikar samevrópsks kerfis
Orkutilskipanir ESB leggja áherslu á frjálst flæði, markaðsverð og tengingu milli ríkja. Hugmyndin er góð á pappír– aukin hagkvæmni og nýting grænnar orku. En þegar bilun verður í mikilvægu stýrieiningu og varaafl er af skornum skammti, getur áhrifin breiðst út á örskömmum tíma.
Hlutverk Norðurlanda
Þegar einhver heldur því fram að samtenging ein og sér dragi úr áhættu, er rétt að minna á að það gildir aðeins ef kerfið er sveigjanlegt, fjölbreytt og vel vaktað. Eins og danskur sérfræðingur orðaði það:
"Markvert fleiri tengingar og fjölbreytt blanda af orkugjöfum hefðu hugsanlega getað mildað vandann... þetta er það sem kallað er dýnamískur sveigjanleiki."
Norðurlöndin hafa ekki aðeins góða tengingu – heldur líka trausta innviði og breiðan orkugrunn. En styrkleikinn liggur í samhengi hlutanna, ekki bara í því að vera með snúrur til nágrannalanda. Það ætti að vera öðrum til eftirbreytni, ekki aðeins í nafni skilvirkni heldur fyrst og fremst vegna öryggis, heldur líka trausta innviði og breiðan orkugrunn. Það ætti að vera öðrum til eftirbreytni, ekki aðeins í nafni skilvirkni heldur fyrst og fremst vegna öryggis.
Er raforkukerfi Evrópu raunhæft í ljósi áfalla eða hannað til að líta vel út á fundum og í skýrslum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)