Öllum í hag en samt þarf að fórna!

Fjármálaráðherra segir að "öllum sé í hag" að fá niðurstöðu dómstóla í netsölumálinu. Það hljómar fallega, eins og málið snúist um hreinan réttarfarslegan ávinning þar sem enginn stendur eftir skaddaður.

En þegar hann bætir við að fyrirtækin hafi sjálf ákveðið að taka áhættuna, verður myndin önnur. Þá er í raun verið að segja: það er í lagi að einstaklingar og fyrirtæki taki á sig fórnarkostnaðinn, svo lengi sem samfélagið í heild fær úrlausn.

Þarna birtist þversögnin:

Ef þetta er "öllum í hag", hvers vegna þarf þá einhver að lenda undir hjólinu?

Ef málið snýst um skýra lagaframkvæmd, hvers vegna taka stjórnvöld ekki ábyrgðina sjálf í stað þess að láta frumkvöðla bera hana fyrir hönd allra?

Þetta er ekki hlutleysi, heldur stjórnmálaleg fjarvera. Talið er eins og jafnvægi og réttlæti ríki, en í reynd er verið að leggja áhættuna á aðra.

Kannski er þetta bara "öllum í hag" - nema þeim sem þora að prófa nýjar leiðir.


Verndarráðstafanir? Já, ef jafnræðið skiptir engu máli

Forsætisráðherra sagði nýlega að fyrirhugaðir verndarráðstafanir ESB á kísiljárn væru viðkvæm og ekki léttvæg aðgerð fyrir sambandið, og lýsti því jafnframt að þetta væri skiljanlegt fyrir ESB.

Þegar málið er sett fram með þessum hætti má skynja að hagsmunir ESB séu hafðir í forgangi umfram það sem EES-samningurinn krefst. Síðustu daga hafa íslensk stjórnvöld sem betur fer verið skýr um að boðaðar verndarráðstafanir séu klárt brot á EES-samningnum. Þetta er því aldrei "skiljanlegt", heldur klárt brot á EES og pólitískt sjálfsmark.

Ísland og Noregur eru ekki aukaatriði í þessu máli. Þessi lönd eru mikilvægir birgjar kísiljárns til ESB. Samt ráðgerir sambandið að taka upp verndarráðstafanir. Það er erfitt að skilja nema sem sjálfsmark.

Við þetta rísa ákveðnar spurningar: ESB hefur sagt að ástæða þess af hverju nauðsynlegt sé að taka upp t.d. tolla á kísilmálm sé of mikill innflutningur. En hvaðan kemur þessi innflutningur? Hann kemur frá Kína. Alþekkt er að kínverska ríkið styrkir sína atvinnuvegi beint með gífurlega miklum stuðningi og hefur það leitt til mikillar offramleiðslu á kísiljárni.

Af hverju er ekki greinarmunur gerður á Íslandi og Noregi annars vegar og Kína hins vegar? Ljóst er að íslensk og norsk stjórnvöld veita enga ríkisstyrki enda eru þessi lönd undirseld ríkisstyrkjareglum ESB í gegnum EES-samninginn. En samt er ráðgert að grípa til verndarráðstafana gagnvart Ísland og Noregi. Hvers virði er það að vera aðili að EES-samningnum?

EES-samningurinn á að tryggja frjálst flæði vöru milli okkar og ESB. Þegar sambandið brýtur hann að eigin geðþótta, verður ljóst að jafnræði er ekki sjálfgefið.
Hvað þýðir þetta í reynd?

Fyrsta skrefið er að taka málið upp í sameiginlegu EES-nefndinni, sem hefur ekkert dómsvald en gæti hugsanlega leitt til pólitísks samkomulags. Ef það ber ekki árangur má fara í gerðardóm eða láta fyrirtæki sem verða fyrir tjóni leita réttar síns fyrir Evrópudómstólnum. Það tekur mörg ár.

Á meðan verður atvinnulífið og þeir sem reiða sig á störf hjá fyrirtækjum sem þessu tengjast, fyrir tjóni, þjóðarkakan minnkar og traust á EES-samningnum bíður hnekki.

Þetta er ekki bara viðskiptamál. Þetta er pólitískt högg sem mun:

a) grafa undan þeirri hugmynd að EES sé öruggur og áreiðanlegur rammi sem tryggi aðgang að innri markaði ESB.
b) minna á að þegar kemur að stóru málunum hefur Brussel síðasta orðið og brýtur eigin reglur þegar það hentar hagsmunum ESB.

Stóra spurningin er:
Af hverju fór ESB af stað í þessa vegferð? Var þetta þrýstingur frá iðnaði innan sambandsins? Var þetta tilraun til að tryggja "sjálfstæði í aðföngum" sem tapaði áttum? Eða einfaldlega gamall vani og treysta því að EFTA-ríkin, Noregur og Ísland, kyngi öllu?
Hvað sem svarið er, þá stendur eftir: Skiljanlegt? Nei. Óafsakanlegt.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband