23.7.2025 | 11:02
Er ESB að undirbúa Ísland fyrir aðild án þess að segja það?
Í vikunni vakti það athygli að yfirmaður landbúnaðarmála hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Elisabeth Werner, fundaði með íslenskum ráðherra til að ræða landbúnað á köldum svæðum. Fundurinn fór lítið fyrir í umræðunni og var settur fram sem dæmigert samstarfssamtal. Engu að síður gefur hann tilefni til að staldra við.
ESB hefur ekki sérstakt prógram um "cold-climate agriculture". Stuðningsflokkarnir sem finna má í sameiginlegu landbúnaðarstefnunni (CAP) ná til svæða með náttúrulegar hindranir (e. areas facing natural constraints), og eru að stórum hluta fjármagnaðir af aðildarríkjunum sjálfum. Þannig eru t.d. stuðningsgreiðslur til bænda norðan 62. breiddargráðu í Svíþjóð og Finnlandi innlendar aðgerðir en ekki beinn stuðningur frá Brussel.
Eftir því sem næst verður komist hafa upplýsingar um fundinn ekki birst í opinberum tilkynningum frá ESB, og ekki liggur fyrir að sérstök stefna hafi verið kynnt. Samt sem áður má sjá svipuð stefnumið koma fram í tengslum við Grænland, Noreg og Ísland í umræðu um frekari stækkun sambandsins. Áhersla á matvælaöryggi, loftslagsmál og byggð í jaðarsvæðum Norður-Atlantshafsins fellur vel að þeirri sýn.
Það sem vekur spurningar er ekki fundurinn sjálfur, heldur sú nálgun sem hann virðist endurspegla: að þróa samstarf á sviðum sem skarast við sameiginlega stefnu sambandsins, án þess að hefja formlegt aðildarferli eða kalla eftir þjóðfélagsumræðu. Ef þetta er hluti af breyttri aðferð ESB til að draga ríki nær pólitískum og stofnanalegum kjarna sambandsins í áföngum, án þess að kalla það aðildarferli, þá þarf að ræða það af hreinskilni.
Lýðræðisleg umræða um stöðu Íslands gagnvart Evrópusambandinu krefst gagnsæis. Hún krefst þess að almenningur hafi aðgang að upplýsingum og geti tekið upplýsta afstöðu. Þess vegna er mikilvægt að taka eftir því þegar breytingar eru kynntar óformlega og án umræðu, því þær geta haft meiri pólitíska þýðingu en ætla mætti við fyrstu sýn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2025 | 11:54
Þingsályktun er ekki eilífðarvél!
Í umræðunni um aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu er oft vísað til þess að Alþingi hafi árið 2009 samþykkt þingsályktun um að sækja um aðild að ESB. Þetta er vitaskuld rétt. En hvernig ber að túlka slíka samþykkt rúmum einum og hálfum áratug síðar? Skiptir máli að önnur ríkisstjórn situr nú? Og að margar þingkosningar hafa verið haldnar á þeim tíma sem liðinn er.
Þetta er lykilatriði sem oft gleymist.
Þingsályktun er ekki lög samþykkt í þremur umræðum og sent forseta til undirritunar sem lög frá Alþingi heldur er þingsályktun viljayfirlýsing Alþingis á ákveðnum tímapunkti samþykkt við tvær umræður. Hún skuldbindur hvorki framtíðarþing né ríkisstjórnir til að fara nákvæmlega sömu leið m.ö.o. er ekki lagalega skuldbindandi.
Stjórnskipulega fer framkvæmdarvaldið með utanríkismál en samkvæmt 24. gr. þingskaparlaga skal ríkisstjórnin ávallt bera undir nefndina meiriháttar utanríkismál, jafnt á þingtíma sem í þinghléum, nema brýn nauðsyn banni. Nánari samskipti við ESB að undirlagi ríkisstjórnar án aðkomu utanríkismálanefndar kunna að fela í sér brot gegn þingskaparlögum.
Þegar ríkisstjórn Íslands ákvað árið 2015 að draga aðildarumsókn að ESB til baka, var það innan heimilda hennar sem framkvæmdarvalds. Þáverandi utanríkisráðherra, Gunnar Bragi Sveinsson, tilkynnti ákvörðunina í bréfi sem sent var til ESB og sem sambandið sjálft tók þátt í að semja eins og margsinnis hefur verið staðfest. Sú ákvörðun var vissulega gagnrýnd meðal annars af þeim sem vildu að Alþingi tæki formlega ákvörðun um breytingu á fyrri ályktun. En þess er einfaldlega ekki krafist samkvæmt stjórnarskrá eða stjórnsýslureglum.
Það er eðlilegt og rétt að spyrja gagnrýninna spurninga um hvernig ákvarðanir eru teknar. En það er ekki gagnlegt að tefla því fram að þingsályktun frá 2009 eða á 137. löggjafarþingi, (þingið sem nú situr er það 156. í röðinni) bindi hendur komandi ríkisstjórna um alla framtíð. Lýðræðið gengur út á breytingar, nýjar kosningar og breyttar áherslur og nýtt pólitískt umboð.
Þeir sem vilja hefja aðildarviðræður við ESB nú ættu því frekar að leggja fram nýja þingsályktun til að endurnýja hið pólitíska umboð sem samningaviðræður þurfa að byggja á. Þá er hægt að ræða málið út á skýrum forsendum í stað þess að klifa á sextán ára gamalli þingsályktun sem samþykkt var við gjörólíkar aðstæður bæði hér heima fyrir og erlendis.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2025 | 12:54
Leikritið í Keflavík Þorgerður leikstýrir, þjóðin fær ekki að tala
Þegar forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Ursula von der Leyen, stóð við hlið forsætisráðherra Íslands á blaðamannafundi í Keflavík nýverið, virtist sem þar færi mikilvægt augnablik í samskiptum Íslands og Evrópu. En það sem átti að vera vettvangur fyrir samtal um fjölbreytt samstarf varð í staðinn uppákoma þar sem öryggi, hernaðarmál og varnarviðbúnaður skipuðu öndvegi.
Öryggismál en án umræðu
Íslensk stjórnvöld töluðu um mikilvægi samvinnu um "innviði, borgaralega vernd og svokallaðar tvíþættar fjárfestingar" hugtak sem virðist fela í sér að fjármunir fari bæði í borgaraleg verkefni og hernaðarlegan undirbúning. Það er skiljanlegt að öryggismál séu á dagskrá nú í óstöðugum heimi. En þegar öðrum mikilvægum málefnum er ýtt til hliðar eins og loftslagsmálum, velferðarmálum, mannréttindum og lýðræðismálum vakna spurningar.
Þögnin er pólitísk ákvörðun
Ekkert var fjallað um ástandið í Palestínu. Engin umræða um sjálfsmynd Íslands sem herlaust ríki eða hlutverk okkar í heimsmynd þar sem vopn og hernaðaruppbygging virðast orðin sjálfgefinn grunnur samskipta. Þetta var sviðsett heimsókn, með fyrirfram samþykktum spurningum og engum opnum umræðum.
Hvaða lýðræðislegu gildi eru höfð að leiðarljósi þegar spurningum fjölmiðla er safnað saman fyrir fund og engin gagnrýnin umræða leyfð á vettvangi?
Að samþykkja í þögn eða að ræða með ábyrgð?
Við þurfum ekki alltaf að taka afstöðu gegn eða með sérhverju álitaefni. En opið samtal, upplýst gagnrýni og siðferðileg ábyrgð eiga að vera undirstaða utanríkisstefnu þjóðar sem kennir sig við lýðræði.
Það er ekki lýðræðislegt að þróa stefnu í lokuðum herbergjum þar sem fáir koma að, án þess að almenningur viti hvað er í vændum. Það er ekki siðferðilega ábyrgt að þegja um þjóðarmorð. Og það er ekki samrýmanlegt þeirri sjálfsmynd sem Ísland hefur ræktað sem ríki sem talar fyrir réttlæti á alþjóðavettvangi, þegar við gleymum því hvar okkar sjónarmiða er mest þörf.
Hver mótar framtíðina og fyrir hverja?
Í stað þess að gefa einföld svör ættum við að spyrja flóknari spurninga:
Hverjir fá að taka þátt í mótun utanríkisstefnunnar?
Erum við að færa ákvörðunarvald um grundvallarstefnu yfir í ógegnsæ ferli þar sem öryggismerkingar þagga niður umræðu?
Við þurfum ekki meira stjórnlyndi heldur meira samtal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.7.2025 | 15:01
Er unnt að tala í nafni þjóðarinnar?
Forsvarsmenn og konur ríkisstjórnarinnar hafa undanfarið farið mikinn í því að tala "í nafni þjóðarinnar".
Þegar gagnrýni kemur fram á þjóðaratkvæðagreiðslu spurninguna um áframhald viðræðna við ESB, er henni gjarnan mætt með orðræðu um að "þjóðin eigi rétt á að tjá sig". Þegar þingmenn krefjast umræðu um veiðigjöld er því svarað með að beita 71. grein í nafni "vilja þjóðarinnar".
Þetta minnir óþægilega mikið á popúlíska stjórnmálahefð en þar er samfélaginu skipt í "hreint fólk" og "spillta elítu". Annað einkenni er að flókin málefni eru einfölduð í svör sem hljóma vel en leiða ekki til neins.
"Viltu halda áfram?" er ekki lýðræðisleg stefnumótun, heldur leið til að framkalla samþykki án umræðu.
Og orðræðan "þjóðin vill" er ekki rök, heldur tækni til að loka á gagnrýni.
En hvað ef þjóðin segir nei?
Hefur hún þá sagt nei við viðræðum?
Við aðild?
Við Evrópusambandið sjálft?
Ef umræðan má ekki fylgja spurningunni, þá hefur svarið lítið vægi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.7.2025 | 10:49
Ætlum við að halda áfram þó enginn spyrji hvert?
Ríkisstjórnin boðar nú þjóðaratkvæðagreiðslu. En um hvað? Ekki um aðild að Evrópusambandinu. Ekki um innihald eða markmið. Ekki einu sinni um það hvort Ísland eigi að sækja um inngöngu í sambandið. Nei, þjóðinni á að bjóða að „halda áfram“ viðræðum sem enginn veit nákvæmlega hvar duttu af vagninum.
Viðræðum sem voru settar í bið árið 2013.
Viðræðum sem stjórnvöld sjálf lýstu lokið árið 2015.
Viðræðum sem ESB virðist hvorki sakna né vilja rifja upp.
En það skiptir víst ekki máli. Svo lengi sem orðalagið hljómar sakleysislega "halda áfram" þá er hægt að ramma þetta inn sem eitthvað sem þjóðin á að segja já eða nei við. Eins og þetta sé bara næsti fundur í fundaröð sem rann út á tíma.
En hver á þá að mæta? Með hvaða umboð? Og hvað á að vera á dagskrá?
Það virðist enginn vita eða að minnsta kosti vilja vita af þeim sem boða þessa atkvæðagreiðslu, væntanlega af því að það hentar einmitt best.
Þetta er ekki stefna. Þetta er ekki pólitísk ábyrgð. Nei en hér er verið að reyna að afla formlegs umboðs fyrir ferli sem enginn hefur skilgreint, með skilmálum sem enginn hefur séð og undir formerkjum sem enginn vill ræða of mikið.
Þau sem hafa kynnt sér ferlið vita að þetta eru ekki samningaviðræður í hefðbundnum skilningi. Það er ekki Ísland sem mótar dagskrána eða hefur yfirleitt áhrif á hana heldur er það Evrópusambandið sem verkstýrir og leggur mat á hvernig Ísland hefur aðlagast regluverki þess.
Við megum koma með okkar fólk og þýða skjölin sem lögð eru fram á fundum en við setjum enga skilmála um hvað út úr þessu á að koma.
Það er sláandi að þetta eigi að setja fram sem einfaldleika spurningu:
Viltu halda áfram?
En spurningin sem ekki má spyrja og sem þjóðin ætti í raun að fjalla um er þessi:
Hvert á að fara?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.7.2025 | 14:10
Æfing í þöggun og svo kemur stóra málið
Í stjórnmálum er ekki óalgengt að prófa aðferð á einu máli til að sjá hvernig hún bítur og síðan nota hana síðar í stærra samhengi. Orðið á götunni segir að slíkt gæti verið að gerast núna.
Sagt er að ríkisstjórnin hyggist beita 71. grein þingskapalaga til að loka umræðu um veiðigjaldafrumvarpið. Það eitt og sér væri tilefni til gagnrýni. En ef þetta reynist rétt, gæti það verið liður í stærri leik: að skapa fordæmi fyrir beitingu sömu reglu þegar þjóðaratkvæði um aðildarviðræður við Evrópusambandið kemur á dagskrá.
Samkvæmt 71. grein getur meirihluti Alþingis samþykkt að umræðu um þingmál skuli ljúka á tilteknum tíma. Þetta á að vera neyðarúrræði, en þegar það er notað á pólitískan ágreining án þess að þolinmæði fái að njóta sín, verður það að verkfæri til þöggunar.
Ef greinin verður notuð nú á tiltölulega afmarkað mál gæti það reynst „tilraunakeyrsla“. Því næst má segja:
„Við höfum gert þetta áður. Þetta er ekkert frábrugðið fyrra fordæmi.“
Og svo verður hægt að loka umræðu um stærsta pólitíska stefnumál landsins í áratugi með tilvísun í tæknilega reglu sem meirihlutinn einn ræður yfir.
En þá verðum við að spyrja: Hvers konar lýðræði er það?
Lýðræði snýst ekki aðeins um að telja atkvæði og mynda meirihluta. Það snýst um að hlusta, ræða og rökstyðja. Það snýst um að virða þá sem eru ósammála og skapa rými fyrir gagnrýni og aðhald. Í lýðræðisþjóðfélagi er hlutverk meirihlutans ekki aðeins að ráða – heldur að sýna að hann kunni að fara með vald af hófsemi og ábyrgð.
Meirihluti hefur vald til að móta stefnu en ekki til að forðast umræðu.
Þeir sem líta svo á að 50,4 prósent í einni kosningu gefi umboð til að stjórna aðgangi að umræðu og stýra því hvernig þjóðin ræðir framtíð sína, misskilja lýðræði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)